„Þetta gekk mjög vel. Þetta hefur verið draumur lengi að opna svona safnkaffihús á Síldarminjasafninu og geta þá fyrst og fremst boðið upp á síld, sem skortir víða á Íslandi,“ segir Anita Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafnsins á Siglufirði. Nýtt kaffihús opnaði á vegum safnsins á laugardag.
Kaffihúsið Síldarkaffi er staðsett í salthúsinu á Siglufirði. Er það 18. aldar pakkhús og nefnir Anita að búið sé að vinna að því að endurreisa húsið undanfarin 10 ár.
„Við opnuðum á laugardaginn og það var svona lítil og heimilisleg viðhöfn. Formaður stjórnar sagði nokkur orð og ég sem safnstjóri. Síðan var það síldargengið okkar sem stendur alltaf vaktina hérna á planinu og saltar síld og heldur uppi stuðinu fyrir gesti. Þau sungu fyrir gesti líka og síðan erum við svo heppin að vera með tónlistarfólk í vinnu hérna þannig að starfsfólk safnsins gat líka boðið upp á tónlistaratriði, sem var æðislegt,“ segir Anita.
Nefnir hún að það skipti miklu máli að kaffihúsið sé fyrir alla. Þótt kaffihúsið sé á svæði safnsins þarf ekki að hafa aðgöngumiða til þess að fá sér volgan bolla á Síldarkaffi. Er húsið öllum opið óháð því hvort fólk sé gestir safnsins eða ekki. Verður þá húsið opið alla daga vikunnar í takt við afgreiðslutíma safnsins.
Um helgina fór fram hátíðin Síldarævintýrið á Siglufirði og segir Anita það svo sannarlega ekki hafa skemmt fyrir.
„Það auðvitað var mannmargt í bænum og það var mikið af fólki á hátíðinni. Þetta í rauninni fór allt fram úr okkar björtustu vonum,“ segir Anita.