Um níu metra langur skíðishvalur er strand við Þorlákshöfn. Starfsfólk Hafrannsóknastofnunar er nú á leið á vettvang til að meta ástand hans.
Tegund hvalsins hefur verið á reiki frá því í morgun þegar tilkynning um hann barst og hann ýmist talinn vera háhyrningur eða hrefna.
Þóra Jónasdóttir, sérgreinadýralæknir villtra dýra hjá Matvælastofnun, segir að Hafrannsóknastofnun telji að um steypireyðarkálf sé að ræða.
Björgunarsveitarmenn mældu hvalinn fyrr í dag og segja hann átta til níu metra langan. Steypireyðarkálfar fæðast sjö til átta metra langir.
Þóra biðlar til fólks að halda sig frá strandstað hvalsins. Hún segir viðveru fólks á svæðinu geta stressað dýið óheyrilega og minnkað lífslíkur þess.
„Hlutverk Matvælastofnunar er að meta ástand dýrsins og hvort það sé hægt eða ráðlagt að koma því til hjálpar út frá dýraverndunarsjónarmiðum,“ segir Þóra.
Ef villt dýr er í neyð ber viðkomandi sveitarfélag ábyrgð á að brugðist sé við samkvæmt lögum um velferð dýra.
Viðbragðsteymið samanstendur af fulltrúa Matvælastofnunar, hvalasérfræðingum á vegum Háskóla Íslands, ásamt fulltrúum lögreglu, Landhelgisgæslunnar, slysavarnafélagsins Landsbjargar, Hafrannsóknarstofnunar, og sveitarfélagsins Ölfuss.