Þorvaldur Halldórsson söngvari lést að morgni mánudags 5. ágúst á Spáni á áttugasta aldursári eftir stutt veikindi.
Þorvaldur fæddist á Siglufirði 29. október 1944 og hóf þar tónlistariðkun sem gítar- og klarinettuleikari en á menntaskólaárum sínum á Akureyri hóf hann að syngja með Busabandinu og síðar Hljómsveit Ingimars Eydal og fleiri sveitum. Með Ingimari sló hann í gegn með laginu Á sjó sem síðan varð eins konar einkennislag Þorvaldar en fleiri vinsæl lög með honum fylgdu í kjölfarið á smáskífum hljómsveitarinnar og sólóplötu s.s. Hún er svo sæt, Mig dregur þrá, Sumarást, Ég tek hundinn, Ég er sjóari og Sailor á Sánkti kildu.
Þorvaldur fluttist suður yfir heiðar snemma á áttunda áratugnum en minna fór fyrir honum á tónlistarsviðinu eftir það. Hann starfaði um tíma með hljómsveitinni Pónik og gaf út nokkrar sólóskífur, sumar þeirra innihéldu kristilega tónlist en hann var virkur í flutningi á kristilegri tónlist. Þegar tónlistarhátíðir voru settar á svið á Broadway og fleiri stöðum til að minnast tónlistar eldri kynslóðanna kom hann margsinnis fram á þeim.
Þorvaldur kvæntist árið 1962 Gunnhildi Hjörleifsdóttur. Þau skildu. Þau eignuðust saman fjögur börn: Leif, Halldór Baldur og Ásu Láru auk stúlkubarns sem lést við fæðingu. Þorvaldur kvæntist seinni eiginkonu sinni, Margreti Scheving, 1975. Hún átti fyrir börnin Pál, Viktor og Heiðrúnu. Þau eignuðust síðan saman Þorvald Kristin 1979. Barnabörnin eru samtals 17.
Þorvaldur lærði rafvirkjun og húsasmíði og starfaði við það um árabil en einnig starfaði hann lengi sem tónlistarmaður innan þjóðkirkjunnar. Hann bjó um tíma í Vestmannaeyjum og á Selfossi en hafði verið búsettur á Torrevieja á Spáni um nokkurt skeið. Bálför Þorvaldar fór fram á Spáni í dag, 7. ágúst. Útförin á Íslandi verður auglýst síðar.