Tjá sig ekki um skoðanir einstakra starfsmanna

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kveðst ekki tjá sig …
Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, kveðst ekki tjá sig um málefni einstakra starfsmanna. Samsett mynd: mbl.is/Kristinn Magnússon

Mennta- og barnamálaráðuneytið kveðst ekki tjá sig um skoðanir einstakra starfsmanna.

Á þessa leið svarar ráðherra fyrirspurn mbl.is, sem varðar gagnrýni Arnórs Guðmundssonar fyrrverandi forstjóra Menntamálastofnunar.

Fyrirspurnin var lögð fram í kjölfar viðtals Morgunblaðsins í lok júlí við Arnór, þar sem hann sagði meðal annars að gæðamálum væri ábótavant í menntakerfinu.

Segir skýrsluna hafða til hliðsjónar

Arnór gagnrýndi meðal annars að ráðuneytið hefði ekkert gert við niðurstöður skýrslu sem Menntamálastofnun tók saman eftir að hafa lokið við ytra mat á öllum grunnskólum landsins.

Morgunblaðið og mbl.is óskuðu í framhaldinu eftir svörum við því hvernig ráðherra hefði brugðist við niðurstöðum skýrslunnar sem Arnór vitnaði í.

Í svari ráðherra segir að skýrslan, eins og aðrar, sé höfð til hliðsjónar í störfum ráðuneytisins.

„Mennta- og barnamálaráðuneytið vinnur að gerð nýs námsmats sem mun koma í stað samræmdra könnunarprófa samkvæmt tillögum starfshóps skipuðum fulltrúum skólasamfélagsins,“ segir í svarinu.

Á ábyrgð ráðuneytisins

Forstjórinn fyrrverandi fann einnig að því að samræmdu könnunarprófin hefðu verið lögð af. Sagði hann það á ábyrgð ráðuneytisins og að stofnunin hefði aldrei fengið nægilegt fjármagn til að leggja prófin fyrir.

„Það var alltaf ljóst að við gerðum þetta bara með ein­hverju bráðabirgðakerfi til þess að byrja með. Síðan var talað um að við þyrft­um að fara í útboð á al­menni­legu kerfi, kaupa fullþróað prófa­kerfi. Það kom aldrei stuðning­ur eða fjár­magn til þess,“ sagði Arnór.

„Við sát­um uppi með mjög gallað kerfi, sem á end­an­um sannaðist þegar það hrundi tvisvar. Þannig að við feng­um bara aldrei þann stuðning og fjár­magn sem þurfti til þess að taka upp al­menni­legt kerfi og leggja fyr­ir próf­in með því,“ bætti hann við.

Vísað til „fréttaflutnings“

Ráðherra svarar á þessa leið:

„Ástæður afnáms samræmdra könnunarprófa koma m.a. fram í skýrslu starfshópsins og í fréttaflutningi ráðuneytisins um hið nýja námsmat.“

Með „fréttaflutningi“ er að líkindum átt við tilkynningar sem birtast af og til á vef ráðuneytisins, en fjallað hefur verið um umrædd áform um nýtt námsmat á mbl.is undanfarnar vikur.

„Ráðuneytið tjáir sig ekki um skoðanir einstakra starfsmanna,“ segir svo að lokum í svari ráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert