Falsboð ákveðinn léttir: Tvær vísbendingar reyndust tilviljanir

Frá leitinni í gærmorgun.
Frá leitinni í gærmorgun. Ljósmynd/Landsbjörg

Björgunarsveitarmenn upplifðu létti þegar upp komst að hugsanlega hefði fals­boð hrundið af stað umfangs­mik­illi leit við Kerl­ing­ar­fjöll á mánu­dag og í gær.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að margt hafi þótt sérkennilegt við útkallið en tvær tilviljanir hafi valdið því að leitin stóð svo lengi yfir. 

Tæp­lega 200 manns komu að leitinni við Kerl­ing­ar­fjöll sem stóð frá mánu­dags­kvöldi fram á þriðju­dag vegna neyðarboða sem bár­ust í gegn­um net­spjall Neyðarlín­unn­ar.

Í neyðarboðunum, sem bárust á ensku, kom fram að tveir göngumenn væru fast­ir í helli á svæði nærri Kerl­ing­arfjöll­um. Eft­ir því sem leið á leit­ina fóru að renna tvær grím­ur á björgun­ar­sveita­fólk og lög­reglu og er nú talið að um fals­boð hafi verið að ræða.

Vísbendingarnar ekki á rökum reistar

Ákvörðunin um að fresta leit var tekin af lögreglunni á Suðurlandi um leið og síðasta vísbendingin rann í sandinn.

Í raun voru tvær tilviljanir sem gerðu það að verkum að leitin stóð yfir svona lengi, að sögn Jóns Þórs.

„Fyrsta vísbendingin er þarna um nóttina þegar það koma upplýsingar frá hótelinu í Kerlingarfjöllum að einn gestur hafi ekki mætt í bókaða gistingu,“ segir hann. Að lokum náðist þó í gestinn sem reyndist bara hafa hætt við Íslandsferðina.

Hin vísbendingin var hvítur Dacia Duster bílaleigubíll við tjaldsvæðið sem lögregla taldi mögulega í leigu hjá göngumönnunum. Síðar kom í ljós að svo var ekki þegar hinir raunverulegu leigjendur skiluðu sér endanlega að bifreiðinni.

„Þegar það fólk kemur og sú vísbending reynist ekki vera á rökum reist, þá er ekkert eftir,“ segir Jón Þór.

Um tvö hundruð komu að leitinni.
Um tvö hundruð komu að leitinni. Ljósmynd/Landsbjörg

Sérkennileg tilkynning

Og þá sátu björgunarsveitarmenn eftir tómhentir. Ekkert fannst sem benti til þess að þessir „týndu göngumenn“ hefðu yfir höfuð verið á svæðinu – enginn bíll, ekkert hjól, ekkert tjald og ekkert sem gaf til kynna að þeim hefði verið skutlað á svæðið.

Tilkynningin til neyðarlínunnar var auk þess sérkennileg að ýmsu leyti, að sögn Jóns, sem tekur þó fram að björgunarfólk þurfi oft að hundsa öll vafaatriði í síkum tilkynningum enda hagi fólk í neyð sér oft skringilega.

„Auðvitað má maður ekki hugsa þannig. Fólk í neyð hugsar ekki alltaf rökrétt,“ bætir hann við.

„Það er ekkert annað í boði en að boð sem eru um einstaklinga í neyð séu rétt. Og sem betur fer, eða kannski því miður, er það þannig í yfirgnæfandi [meirihluta] tilvika.“

Aldrei séð neitt þessu líkt

Gerist þetta oft?

„Nei, sem betur fer ekki,“ svarar Jón Þór og tekur fram að hann muni sjálfur ekki eftir falsboði sem var til þess eins gert að gabba viðbragðsaðila. Stundum hafi fólk ýtt óvart á neyðarhnapp eða skotið neyðarblysi í hugsunarleysi.

„En ekkert þessu líkt, sem var til þess að gabba og sennilega fyrirséð að það yrðu sérstök viðbrögð.“

Hann kveðst í raun hafa fundið fyrir létti þegar í ljós kom að um falsboð væri að ræða.

„Í raun og veru var mér að vissu leyti létt,“ segir Jón Þór.

„Við höfðum þá vitneskju um að það væri ekki fólk í neyð sem við værum ekki að finna.“

Hann skilur þó ekki alveg hvers vegna nokkur myndi reyna að gabba björgunarfólk upp á gamanið.

„En auðvitað eftir á, þegar aðeins lengra líður hjá, þá er maður aðallega kannski hissa að einhver skuli gera þetta.“

Yf­ir­lög­regluþjónn seg­ir það brot á hegn­ing­ar­lög­um að gabba neyðarlið og björg­un­ar­sveit­ir. Unnið sé að því að afla upp­lýs­inga um staðsetn­ingu skila­boðanna. Rann­sókn á neyðarboðinu stend­ur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert