Blíða í kortunum á Gleðigöngunni

Spáð er sól og blíðu á Gleðigöngunni í ár.
Spáð er sól og blíðu á Gleðigöngunni í ár. mbl.is/Ottar Geirsson

Útlit er fyrir fínasta veður í dag og á morgun á öllum landshlutum, en besta veðrið virðist vera á höfuðborgasvæðinu um helgina. 

Þetta segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is. 

Besta veðrið á höfuðborgasvæðinu

Þeir sem leggja leið sína í miðbæ Reykjavíkurborgar á morgun til að ganga í Gleðigöngunni verða eflaust sáttir, enda er ekkert nema sól og hiti í kortunum. 

„Það verður svipað veður á höfuðborgasvæðinu á morgun og er í dag, hitinn á bilinu 10 til 15 stig yfir daginn. Þó verður smá skýjað á köflum, en í rauninni bjartara og hlýrra sunnanlands heldur en í öðrum landshlutum.“

Hann segir besta veðrið líklega verða á höfuðborgasvæðinu um helgina. 

Hitinn á bilinu 9 til 15 stig

Þá verður ágætis veður á Norðurlandi um helgina, en mun hlýrra verður þar á sunnudag heldur en á morgun. 

„Það er bara ágætt veður um allt landið þessa helgina, smá síðdegisskúrir á einhverjum landshlutum en annars þurrt. Hitinn verður á bilinu 9 til 15 stig, það verða því hvergi einhverjar mjög háar hitatölur en hvergi vont veður.“

Sunnudagurinn verður ekki eins hlýr í neinum landshluta, og verður eitthvað um skúrir og vind, einkum á suðvesturlandi. 

Veðurvefur mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka