Draumsýnin að bærinn muni líkjast því sem áður var

Bjarni Benediktsson ræddi við mbl.is um Grindavík og Grindvíkinga.
Bjarni Benediktsson ræddi við mbl.is um Grindavík og Grindvíkinga. Samsett mynd/Eggert

„Það er draumsýnin okkar. Það er það sem við vonumst til þess að geti gerst. Að smám saman skapist grundvöllur fyrir áframhaldandi búsetu í Grindavík sem yfir tíma vindur upp á sig og bærinn líkist aftur því sem áður var.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra spurður hvort hann bindi vonir við að Grindvíkingar geti einn daginn snúið aftur til síns heima.

„Það er bara ekki tímabært að fullyrða neitt um þetta. Við erum stödd í ítrekaðri atburðarás,“ bætir hann við.

Enn atvinnustarfsemi í bænum

Áætlaður kostnaður við nýja aðgerðaáætl­un Grinda­vík­ur­nefnd­ar er 470 millj­ón­ir króna og lang­um­fangs­mesti liður­inn í henni eru viðgerðir og fram­kvæmd­ir á innviðum Grinda­vík­ur­bæj­ar.

„Það er staðreynd að það er enn atvinnustarfsemi í gangi í Grindavík og til þess að hún geti áfram farið fram og fólk geti fengið vinnuafl til þess að sinna störfum, sem til dæmis tengjast höfninni, þá þurfa ákveðnir grunninnviðir ávallt að vera til staðar,“ segir Bjarni.

Hann nefnir að enn sé starfsemi við höfnina í Grindavík og miklu máli skipti að innviðir séu í lagi svo að hægt sé að tryggja að líf verði áfram í atvinnuvegum bæjarins.

Áfram er líf í höfninni í Grindavík.
Áfram er líf í höfninni í Grindavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Skynsamleg ráðstöfun

Hann segir nauðsynlegt að huga að flóttaleiðum úr bænum svo hægt sé að yfirgefa svæðið ef svo ber undir. 

„Það þarf að vera öruggt rafmagn og heitt og kalt vatn. Þetta eru algjörir grunnþættir og að fjárfesta í þeim, til viðbótar við það sem þegar er búið að gera, er skynsamleg ráðstöfun til að halda lágmarks hjartslætti á meðan að við erum að ganga í gegnum þessa ítrekuðu atburðarás,“ segir Bjarni.

Hann segir alla gera sér grein fyrir því að ef vísindin segja að það séu engar líkur á því að það verði skilyrði til búsetu í Grindavík til skamms tíma, að þá gæti þurft að endurmeta þessa stöðu.

„En við erum ekki komnir að því að fara í einhvers konar grundvallar endurmat á þessu,“ segir hann.

„Höfum gert allt sem við getum“

Grunnskólar verða flestallir iðandi af lífi þegar skólastarf hefst á ný síðar í mánuðinum. Eins og vitað er þá eru grindvísk börn á víð og dreif um landið.

Spurður hvort að grindvísk börn séu ekki örugglega öll með skólapláss og hvort að þessum málum sé enn fylgt eftir segir Bjarni:

„Við höfum gert allt sem við getum til að kortleggja það og erum með sérstaka starfsemi sem er ætlað að þjóna sem miðstöð til að gefa fólki upplýsingar, en um leið halda utan um stöðu fjölskyldna frá Grindavík. Hvað varðar skólamálin þá held ég að það sé í ágætis farvegi,“ segir hann.

Eldri nemendur úr Grindavík í tíma í Laugalækjarskóla.
Eldri nemendur úr Grindavík í tíma í Laugalækjarskóla. mbl.is/Kristinn Magnússon

Of margir ekki komnir í viðunandi húsnæði

Hann segir ríkisstjórnina þó hafa verið að fylgjast einkar náið með stöðu húsnæðismála Grindvíkinga.

„Það eru enn þá, að okkar áliti, of margir sem eru ekki komnir í viðunandi húsnæði. Þá er ég að vísa til húsnæðis sem mætir þörfum fjölskyldunnar eftir fjölskyldustærð og þess háttar. Þannig það eru enn þá verkefni að glíma við til þess að koma öllum fyrir á góðum stað þannig allir geti vel við unað miðað við aðstæður,“ segir hann og bætir við:

„Margir hafa sjálfir leyst úr sinni stöðu en það eru enn þá mál sem við erum að greiða úr.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert