Bleikþvottur hefur verið mikið í umræðunni síðustu ár í kringum hinsegin daga. Bleikþvottur í þeim skilningi er þegar fyrirtæki og stofnanir sveipa sig regnboganum án þess að gefa neitt til baka til hinsegin samfélagsins og eru því að nota regnbogann til eigin framdráttar.
Þetta segir Mars M. Proppé aktívisti í samtali við mbl.is.
Mars er eitt þeirra úr grasrót hinsegin samfélagsins sem staðið hefur að ákveðnu verkefni til að afla upplýsinga um hvort fyrirtæki séu að sýna samfélaginu stuðning í raun eða ekki.
Hán segir stuðning geta verið margskonar, ekki bara í formi fjármuna. Fyrirtæki og stofnanir geta sýnt hinsegin samfélaginu stuðning á fjölbreyttan hátt, allt frá því að huga að eigin starfsfólki yfir í fjárhagsstyrki til hinsegin samtaka.
Mars segir flókið að átta sig á því hvort fyrirtæki séu í raun að standa á bak við það sem regnboginn merkir. Þaðan kom hugmyndin að því að gera skjal þar sem hinsegin samfélagið og grasrótin geta safnað saman upplýsingum um hvort fyrirtæki og stofnanir séu raunverulega að styðja við hinsegin samfélagið eða bara skreyta sig með litum þess.
Upplýsingarnar fá þau frá fólki sem þau vita að styðja við hinsegin samfélagið eða fólki sem þekkir til hjá hverju og einu fyrirtæki.
„Tilgangurinn er ekki að benda fingri og ásaka fyrirtæki heldur frekar að vekja fólk til umhugsunar,“ segir hán og bætir við að nú þegar Hinsegin dagar eru gengnir í garð sé það fremur innantómt að flagga fána í eina viku af árinu og sýna svo engan stuðning allar hinar 51 vikurnar.
„Þess vegna erum við að hvetja fólk til þess að eiga þessi samtöl, bæði innan sinna stofnana og fyrirtækja en líka við aðrar stofnanir og fyrirtæki,“ segir hán og bætir við að þetta snúist ekki um að fá beinan fjárstuðning, enda ekki allar stofnanir og fyrirtæki sem hafi tök á því, heldur snúist þetta um að sýna hinsegin samfélaginu stuðning á einhvern hátt.
„Við erum að kalla eftir að þegar fólk setur upp fána, sem við viljum endilega að fólk geri, að þá þýði það að það sé raunverulegur stuðningur á bak við það, en ekki bara að fólk vilji skreyta sig með okkar fjöðrum,“ segir Mars.
Hán bætir við að þess vegna sé svo mikilvægt að þetta komi frá grasrótinni en ekki Samtökunum '78 sem dæmi, því það er auðvitað stofnun, þetta verði að vera grasrótarframtak.
Mars telur þetta mikilvæga umræðu sem hefur verið að krauma á yfirborðinu síðustu ár eftir því sem fleiri stofnanir og fyrirtæki taka sig til og sýna lit.
Ekki hefur verið auðvelt að vita fyrir víst hvaða fyrirtæki og stofnanir eru að sýna raunverulegan stuðning, en fagnar hán því þessari leið sem grasrótin er að fara til þess að komast að því hvar raunverulegur stuðningur liggur.
„Vonandi vekur þetta fólk í stjórnunarstöðum innan stofnana til umhugsunar að pæla í því, erum við að sýna raunverulegan stuðning og hvernig getum við gert betur?“ segir Mars.
Upprunalega tók Mars saman upplýsingar af vefsíðum mismunandi félagasamtaka um það hverjir væru opinberir stuðningsaðilar hinsegin samfélagsins og síðustu daga, eftir að listinn var gerður opinber, hafa hægt og rólega upplýsingar komið inn frá fólki út í bæ, sem merkir inn stöðu fyrirtækja hvort sem það þekkir til eða starfi hjá fyrirtækjunum sjálfum.
Samtökin '78 senda ekki frá sér neinar yfirlýsingar varðandi hugsanlegan bleikþvott fyrirtækja sem prýða sig regnbogalitum á hinsegin dögum.
Þetta segir Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður Samtakanna '78, í samtali við mbl.is.
Hún segir grasrótina mikilvæga í öllu mannréttindastarfi, til þess að hvetja til einhvers konar samtals, sem er einmitt það sem er í gangi hjá grasrótarhreyfingu hinsegin samfélagsins.
Gott er að vekja athygli á því að allir mega vera sýnilegir á þessum tíma segir Bjarndís og bætir við að þegar fólk og litlar verslanir setja fram regnbogafána sé það ekki bleikþvottur.
„Ég held að almennt sem samfélag séum við að verða meðvitaðri um að það skiptir máli að sýna stuðning í verki með einhverjum hætti, hvernig sem hann lítur út. Ég held líka að sem samfélag séum við orðin miklu opnari fyrir fjölbreytileikanum og meðvitaðri um mannréttindi almennt og þá verður kannski eðlilega minna af bleikþvotti,“ bætir hún við.
Bjarndís segir að það sem grasrótin er að gera sé að opna samtal og kalla eftir því að fyrirtæki styðji við hinsegin samfélagið með einhverjum hætti, hvort sem stuðningurinn sé í formi fjármuna eða ekki, enda séu alls kyns leiðir til að styðja við samfélagið.
„Bleikþvottur er eitt af þessum hugtökum sem mikilvægt er að ræða. Hvenær er eitthvað bleikþvottur? Hvenær er stuðningur sýnilegur og hvenær ekki?“ segir Bjarndís að lokum.