Engin fíkniefni voru um borð í báti sem kom að landi í Höfn í Hornafirði í gærkvöldi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
„Engin fíkniefni reyndust vera í pakkningum sem fundust við tollskoðun um borð í skemmtibáti á Höfn í Hornafirði í gær. Nokkur viðbúnaður var uppi vegna grunsemda um möguleg fíkniefni, en að málinu komu lögregluembættin á Suðurlandi og höfuðborgarsvæðinu, auk tollgæslunnar,“ segir í tilkynningunni.
Þá kemur fram að pakkningarnar hafi verið fluttar til Reykjavíkur til frekari skoðunar sem leiddi í ljós að ekki væri um fíkniefni að ræða.
Tveir skipverjar voru yfirheyrðir vegna málsins en þeir eru nú frjálsir ferða sinna.