Er misskilningur á kreiki?

Freyja Birgisdóttir, sviðsstjóri matssviðs hjá MMS, talar um misskilning og …
Freyja Birgisdóttir, sviðsstjóri matssviðs hjá MMS, talar um misskilning og forstjórinn Þórdís Jóna Sigurðardóttir segir ótta eðlilegt viðbragð. Ráðherrann Ásmundur Einar Daðason hefur verið gagnrýndur og krafinn um svör. Samsett mynd

Sviðsstjóri hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS) segir að misskilningur hafi verið á kreiki í þeirri umræðu sem sprottið hefur upp í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar mbl.is og Morgunblaðsins um íslenska menntakerfið. 

Forstjóri stofnunarinnar talar um ótta og að fólk átti sig ekki nógu vel á fyrirhuguðum breytingum.

„Það eru oft átök þegar breytingar eru í farvatninu og við höfum fengið að finna fyrir því,“ skrifar forstjórinn Þórdís Jóna Sigurðardóttir á Facebook um gagnrýnina sem skólayfirvöld hafa mætt undanfarnar vikur.

„Ótti eru eðlileg viðbrögð og sérstaklega þegar fólk áttar sig ekki nógu vel á hvað breytingarnar fela í sér,“ bætir hún við og deilir um leið grein Freyju Birgisdóttur, sviðsstjóra matssviðs hjá stofnuninni, sem birt var í Morgunblaðinu í gær og er reifuð hér neðar.

Ráðherra krafinn um svör

Eins og áður kom fram segir Freyja að misskilningur hafi verið á kreiki, „um að með afnámi samræmdra könnunarprófa og innleiðingu Matsferils hverfi allt samræmt námsmat úr íslensku skólakerfi“.

En gagnrýnin hefur þó einna helst lotið að því hvernig staðið var að afnámi prófanna, og hversu langur tími muni líða án þess að fram fari heildstætt samræmt mat á getu íslenskra grunnskólabarna. Ekki síður að þeirri óvissu sem ríkir um innleiðingu þessa nýja námsmats.

Þannig hefur umboðsmaður barna krafið Ásmund Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, um svör og spurt hvort til staðar sé skýr og heild­stæð áætl­un um inn­leiðingu á nýju sam­ræmdu náms­mati. Sömuleiðis hefur hann krafist upplýsinga um hvenær áætlað sé að nýtt sam­ræmt náms­mat verði inn­leitt að fullu.

Matsferillinn, nýja námsmatið sem leysa átti samræmdu könnunarprófin af hólmi, er enda enn í þróun þremur árum eftir að prófin voru aflögð.

Enn lengra er síðan prófin gáfu fullnægjandi niðurstöður.

Ráðherra sakaður um áhugaleysi og uppgjöf

Áform um breytingar á lögum um grunnskóla voru í sumar færð í samráðsgátt stjórnvalda. Aðeins lágmarksfrestur var gefinn til athugasemda og var fresturinn framlengdur í kjölfar gagnrýni þar að lútandi.

Verði áformin að lögum verður ráðherranum heimilt að leggja niður samræmd könnunarpróf til frambúðar.

Könnunarprófin hafa ekki verið lögð fyrir frá árinu 2021 eftir að fyrirlagning þeirra misfórst í nokkur skipti.

Fyrrverandi forstjóri Menntamálastofnunar hefur sakað ráðherrann um áhugaleysi gagnvart prófunum og kveður stofnunina hvorki hafa fengið fjármagn né stuðning til að leggja prófin fyrir.

Dósent við menntavísindasvið Háskóla Íslands hefur sakað ráðherrann um uppgjöf með aflagningu samræmdu prófanna. Tveir prófessorar og annar dósent hafa sagt ákvörðun ráðherrans óráðlega og afdrifaríka. Er þá gagnrýnin ekki upptalin.

Ráðherra fer með rangt mál

Eftir ákvörðun skólayfirvalda hefur ekkert heildstætt samræmt námsmat farið fram í grunnskólum í nokkur ár, en áður var matið árlegt.

Ekki lítur heldur út fyrir að það breytist í bráð, þrátt fyrir að ráðherra haldi ranglega öðru fram.

Formaður Kennarasambandsins hefur sagt það bagalegt að ekkert sam­ræmt mat hafi verið lagt fyr­ir nem­end­ur í fleiri ár.

„Sam­ræmd­ar mæl­ing­ar sem nýt­ast skól­un­um eru bara tæki sem við þurf­um að hafa. Það er sárt að segja en við stönd­um bara verr með það á Íslandi held­ur en marg­ar ná­grannaþjóðir okk­ar – að geta rýnt inn í skól­ana okk­ar og séð hvernig við náum meiri ár­angri á ólík­um sviðum,“ sagði formaðurinn Magnús Þór Jónsson í samtali við Morgunblaðið í byrjun ágúst.

Óvissa undir stjórn ráðherrans

Fyrrverandi skrifstofustjóri í mennta- og barnamálaráðuneytinu hefur bent á að í helstu nágrannaríkjum séu samræmd könnunarpróf enn við lýði.

Þá hefur Björn Bjarnason, fyrrverandi menntamálaráðherra til margra ára, sagt það sorg­legt og al­var­legt, hvernig komið sé fyr­ir ís­lensku grunn­skóla­starfi.

Seg­ir hann mikla óvissu ríkja í mála­flokkn­um und­ir stjórn ráðherr­ans Ásmund­ar Ein­ars Daðason­ar.

„Smíði þessa verk­fær­is til að mæla ár­ang­ur grunn­skóla­nema hef­ur staðið síðan 2020 og enn veit eng­inn hvenær það sér dags­ins ljós,“ skrifar Björn um áform skólayfirvalda.

Dragi upp „heildstæða mynd af námslegri stöðu“

Freyja talar eins og áður sagði um misskilning og segist í grein sinni vilja útskýra hvað felist í matsferlinum og hvaða hlutverki hann komi til með að gegna í skólastarfi.

Segir hún stofnunina, sem tók við af Menntamálastofnun fyrr á árinu og hefur verið sögð hluti af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við slakri frammistöðu íslenskra nemenda í PISA-könnunum, vilja varpa skýrara ljósi á hvað matsferill sé.

„Matsferill er safn matstækja sem dregur upp heildstæða mynd af námslegri stöðu og framförum nemenda jafnt og þétt yfir skólagönguna og kemur auga á þau börn sem telja má í áhættu vegna framvindu í námi og þroska,“ segir í grein Freyju. 

„Hlutverk hans [er] tvíþætt: Annars vegar að fylgjast með hverju barni og tryggja að það fái viðeigandi kennslu og stuðning. Hins vegar er Matsferli ætlað að afla upplýsinga um stöðu skólakerfisins í heild þannig að stefnumótandi aðilar geti fylgst með þróun námsárangurs yfir tíma og greint styrkleika og mögulegar áskoranir.“

Fram undan eru að minnsta kosti nokkur ár án samræmds …
Fram undan eru að minnsta kosti nokkur ár án samræmds námsmats fyrir íslensk grunnskólabörn. Fleiri slík ár eru einnig að baki. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Auðga niðurstöður námsmats með fjölbreyttum gögnum“

Freyja segir námsmatið ná yfir vítt svið, en þess ber þó að geta að fyrstu tveir námsmatsferlarnir sem verða teknir í gagnið á næstu árum mæla aðeins stærðfræði- og íslenskukunnáttu, þ.e. málþroska og læsi.

Ekki liggur fyrir hvenær aðrar greinar, á borð við náttúruvísindi eða önnur tungumál, verða hluti af matsferlinum.

„Prófin samanstanda af stöðluðum stöðu- og framvinduprófum, skimunarprófum og öðrum verkfærum sem kennarar geta notað eftir hentugleika til stuðnings við mat og kennslu. Prófin verða í flestum tilfellum rafræn sem skapar möguleika á að tengja niðurstöður þeirra við Frigg nemendagrunn, sem nú er í smíðum. Þannig verður í fyrsta skipti hægt að auðga niðurstöður námsmats í íslenskum grunnskólum með fjölbreyttum gögnum,“ segir í grein Freyju.

„Þá verður hægt að tengja niðurstöður Matsferils við námsgagnaveitu og raungera þannig þá áherslu að mæta hverju barni þar sem það er statt hverju sinni, með námsgögnum við hæfi.“

Freyja segir stöðu- og framvindupróf mikilvægan hluta matsferils. 

„[E]n markmið þeirra er að draga upp sem nákvæmasta mynd af því hvar áskoranir og styrkleikar nemenda liggja.“

Enn lengra í stærðfræðiprófin

Eina verkfæri matsferilsins sem hefur verið tekið í gagnið, en verkfæri er það kallað í tilkynningum stjórnarráðsins, er svokölluð lesfimi, en það er valfrjálst próf í lestri. Freyja segir flesta skóla hafa nýtt sér það í nokkur ár.

Næstu skref eru sögð snúa að prófum í lesskilningi og stærðfræði. Freyja fullyrðir að sú vinna sé langt á veg komin.

Í viðtali við Þórdísi Jónu í Morgunblaðinu 18. júlí kom fram að lesskilningsprófin yrðu ekki tilbúin til notkunar fyrr en í fyrsta lagi á þarnæsta skólaári, eða 2025-2026, og þá aðeins fyrir nokkra árganga. Forprófanir á prófunum myndu þó hefjast á skólaárinu sem hefst í haust.

Þá er enn lengra í að stærðfræðiprófin verði tilbúin til notkunar. Verður það í fyrsta lagi skólaárið 2026-2027 og þá aðeins í nokkrum árgöngum, að því er fram kom í viðtalinu.

„Kennarar munu leggja þau próf fyrir einu sinni til tvisvar á hverju skólaári. Þannig er vonast til að niðurstöður þeirra nýtist kennurum til skipulagningar kennslu að hausti og til mats á árangri kennslunnar að vori. Slík hringrás mats og kennslu er mikilvægur grunnur markvissra kennsluhátta og auðveldar kennurum að aðlaga kennslu ólíkum þörfum,“ segir í grein Freyju.

Hún tekur þó fram að í fyrstu muni prófin aðeins ná yfir fjóra skólaárganga, eða 4., 6., 8. og 10. bekk. Fleiri árgangar muni bætast við síðar.

Fyrirlögnin verði sveigjanlegri

„Stöðu- og framvindupróf Matsferils eru samræmd en fyrirlögn sveigjanlegri en í tilfelli gömlu samræmdu prófanna, þar sem hún miðast ekki við einn ákveðinn dag heldur lengri prófaglugga,“ skrifar Freyja.

„Þannig verður auðveldara að laga prófin að kennsluskipulagi hvers skóla. Hverju prófi fylgja aldursbundin viðmið um framvindu og því mögulegt að bera niðurstöður hvers nemanda, bekkjar eða skóla saman við niðurstöður fyrir landið í heild.“

Freyja segir að skólakerfið muni því hafa greiðari aðgang að vönduðum samræmdum mælikvörðum en nokkru sinni áður.

Enn er alls óljóst hver útfærsla prófanna verður, hvort þau …
Enn er alls óljóst hver útfærsla prófanna verður, hvort þau verði yfir höfuð valfrjáls og hver muni á endanum ráða hvort nemendur þreyti prófin eða ekki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valfrjáls verkfæri?

Þá segir hún að í niðurstöðum starfshóps um samræmt námsmat sé gert ráð fyrir að skólar verði skyldugir til þess að leggja fyrir tiltekin próf í lesskilningi, stærðfræði og íslensku sem öðru máli.

Í tilkynningum stjórnarráðsins, sem ráðherra kallar raunar fréttaflutning, hefur aftur á móti verið fullyrt að matsferill sé heildstætt safn valfrjálsra og fjölbreyttra matstækja.

Í samráðsgátt þar sem matsferill var kynntur í mars á síðasta ári segir: „Kennarar og skólarnir sjálfir bera ábyrgð á fyrirlögn matstækjanna ásamt því að sjá um að skrá og halda utan um niðurstöður í námsmatskerfi skólans.“

Í viðtali við Morgunblaðið í júní sagði Þórdís Jóna að það yrði í höndum skólastjórnenda, sveitarstjórnar eða ráðherra að ákveða hvort kennarar yrðu skyldaðir til að leggja prófin fyrir.

Af þessu má ráða að enn er alls óljóst hver útfærsla prófanna verður, hvort þau verði yfir höfuð valfrjáls og hver muni á endanum ráða hvort nemendur þreyti prófin eða ekki.

Stofnunin ekki á einu máli um tímasetningar

Hvað varðar tímalínu innleiðingar matsferilsins segir Freyja það langtímaverkefni.

„Á næstu tveimur árum verður áhersla lögð á að innleiða stöðu- og framvindupróf í lesskilningi og stærðfræði. Til þess að sem best takist til höfum við óskað samstarfs við 20 skóla á landsvísu um að nota prófin næsta skólaár og veita endurgjöf varðandi inntak þeirra, fyrirkomulag og framkvæmd. Þau verða svo innleidd í alla skóla skólaárið 2025-2026,“ segir í greininni.

Eins og áður kom fram sagði Þórdís Jóna, forstjóri MMS, í viðtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði að innleiðingin tæki lengri tíma en svo. Stærðfræðiprófin yrðu til að mynda ekki tilbúin til innleiðingar fyrr en í fyrsta lagi skólaárið 2026-2027, eða ári síðar en sviðsstjórinn fullyrðir í greininni.

„Rammi til mats og kennslu ritunar verður einnig innleiddur á næsta skólaári, auk skimunarprófsins LANÍS sem gerir kennurum kleift að finna börn með seinkaðan málskilning og tjáningu strax á leikskólaaldri,“ segir jafnframt í grein Freyju.

Einnig er hafin vinna við þróun vefs sem inniheldur leiðbeiningar og annað stuðningsefni sem hjálpar kennurum og foreldrum að vinna með málþroska á markvissan hátt. Málþroskapróf til notkunar á yngsta og miðstigi grunnskóla eru einnig áformuð, auk skimunarprófs á sviði stærðfræði.

Matsferillinn sagður hvíla á samráði

Að lokum segir hún að miklar væntingar standi til þess að matsferillinn nýtist til umbóta í skólastarfi. 

„Til þess að ná því markmiði höfum við átt náið samráð við skólasamfélagið á mismunandi tímum í ferlinu þar sem leitað hefur verið eftir sjónarmiðum nemenda, foreldra, kennara, skólastjórnenda og annarra hagsmunaaðila innan skólakerfisins. Þróun Matsferils hvílir á því samráði og það er okkar einlæga trú að úr verði hagnýtt verkfæri sem nýtist skólasamfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert