Fær ekki hjólastólana á meðan Tollurinn er í sumarfríi

„Ef þetta væri ekki vara sem skipti svona miklu máli …
„Ef þetta væri ekki vara sem skipti svona miklu máli þá væri ég ekki svona pirraður.“ Samsett mynd/Mobility.is/Aðsend

Sigurður Jóhannesson, eigandi fyrirtækisins Mobility, segir hjólastóla sem hann hafi keypt til landsins hafa verið í vöruskoðun í 60 daga. Engin svör sé að fá um töfina þar sem allir starfsmenn Tollsins séu í sumarfríi. 

„Ég væri nú alveg til í að fá vinnu þarna fyrst þau fá tveggja mánaða sumarfrí,“ segir Sigurður sem kveðst hafði fengið sig fullsaddan í dag eftir að hafa engin svör fengið í tvo mánuði þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir. 

Vissu ekki neitt

Mobility selur og leigir hjálpartæki til fatlaðra en pöntunin inniheldur átta hjólastóla og sex rafskutlur. Segir Sigurður áður hafa pantað sömu vörur og þá hafi skoðunin yfirleitt tekið innan við sólarhring. 

Hann hafi því farið í eigin persónu í Tollhúsið í morgun til að krefjast svara en einnig komið þar að tómum kofanum og í kjölfarið birt Facebook-færslu um málið.

„Það voru þarna þrjár konur í afgreiðslunni sem bara vissu ekki neitt,“ segir Sigurður.

Kveðst hann að lokum hafa fengið að tala við starfsmann sem hugðist heyra í starfsmanninum sem væri ábyrgur fyrir vöruskoðun tækjanna á mánudaginn. Hann þori þó ekki að fagna fyrr en loforðið hafi verið efnt.

Komast ekki í sitt sumarfrí án hjálpartækjanna

Segir Sigurður stórfurðulegt að stofnun sem sinni slíku hlutverki sendi að því virðist alla starfsmenn sína í svo langt sumarfrí á sama tíma.

„Þau eru öll í sumarfríi og á meðan þarf fólk að bíða og við náttúrulega erum bara hérna að svara í símann að reyna að róa fólk niður sem er að missa af sumarfríinu sínu að því þau fá ekki þessi hjálpartæki sín. Okkur finnst þetta bara illa gert við fatlað fólk,“ segir Sigurður.

„Fólk er ekkert að kaupa þessi hjálpartæki að gamni sínu, það þarf á þeim að halda. Það versta er að við fáum engin svör. Ekki einu sinni staðfestingu á móttöku póstsins.“

Vara sem skiptir máli fyrir daglegt líf

Segir Sigurður viðskiptavini sína réttilega pirraða og reiða yfir stöðunni og suma einfaldlega hafa farið fram á endurgreiðslu. Hann upplifi því bæði tekjumissi svo ekki sé minnst á geymslugjöldin sem hann þurfi að greiða sjálfur, þar sem greiðslugjöld eigi við um varning sem hafi verið í geymslu lengur en tíu daga. 

Aðspurður kveðst hann ekki einu sinni ætla að reyna að leita réttar síns vegna gjaldanna því taki einfaldlega ekki þegar Tollurinn eigi í hlut.

„Ef þetta væri ekki vara sem skipti engu máli þá væri ég ekkert að skrifa um þetta á Facebook. En að því að þetta er vara sem skiptir virkilega miklu máli og hefur áhrif á daglegt líf þessa fólk sem er að bíða eftir vörunni þá getur maður eiginlega ekki bara þagað,“ segir Sigurður.

„Ég er yfirleitt mjög þolinmóður maður en þetta er alvega að fara yfir strikið hjá mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert