Aðgerðaáætlun gegn sýklalyfjaónæmi hefur verið staðfest.
Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra staðfestu áætlunina á dögunum.
Aðgerðaáætlunin var unnin af þverfaglegum starfshópi heilbrigðisráðherra undir forystu Þórólfs Guðnasonar, fyrrverandi sóttvarnalækni, og felur í sér skilgreindar aðgerðir og verkefni sem ráðast þarf í.
Sýklalyfjaónæmi felur í sér að ekki er hægt að meðhöndla einfaldar jafnt sem alvarlegar sýkingar með sýklalyfjum, en sá vandi fer vaxandi hér sem annars staðar.
Þar sem orsakir sýklalyfjaónæmis eru margar og samverkandi, hvetja alþjóðlegar stofnanir til þess að aðgerðaáætlanir þjóða byggi á nálgun „einnar heilsu“.
Það felur í sér að aðgerðir þurfa að beinast að mönnum, dýrum, matvælum og umhverfi þar sem rætur vandans liggja. Aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda er unnin á þeim grunni, sem snertir málaflokk ráðherranna þriggja.
Þungamiðja áætlunarinnar felur í sér verkefni sem miða að því að minnka og bæta notkun sýklalyfja, auka hreinlæti og koma í veg fyrir sýkingar með öðrum ráðum eins og bólusetningum.
Áætlunin nær til áranna 2025-2029.