Íslensk stúlka brillerar í enska landsliðinu

Bo Guttormsdóttir-Frost er tilnefnd sem MVP á Evrópumeistaramóti kvenna í …
Bo Guttormsdóttir-Frost er tilnefnd sem MVP á Evrópumeistaramóti kvenna í körfubolta. Samsett mynd/Instagram

Bo Guttormsdóttir-Frost, íslensk-ensk körfuknattleikskona, gerir garðinn frægan í körfuboltaheiminum um þessar mundir.

Hin 16 ára gamla Bo, sem á íslenskan föður og enska móður, spilar fyrir hönd enska kvennalandsliðsins í körfubolta. Liðinu vegnar afar vel og er komið í átta liða úrslit á Evrópumeistaramótinu sem haldið er í Rúmeníu.

Blaðamaður mbl.is náði tali af föður Bo, Guttormi Brynjólfssyni, á meðan Bo var að hita upp fyrir leik Englands og Grikklands í dag.

Tilnefnd til MVP-verðlauna 

„Hún er í undir átján ára liðinu en ætti raunar að vera í undir sextán. En henni gengur vel og er tilnefnd til MVP í undir 18. Þannig hún er mjög efnileg,“ segir Guttormur en MVP verðlaunin eru veitt verðmætasta leikmanninum.

Raunar er Bo svo efnileg að hún er nýbúin að skrifa undir samning við körfuboltalið Valencia á Spáni og byrjar að æfa með þeim í haust, en hún hefur hingað til spilað fyrir Stjörnuna.

Hæfileikarnir virðast ættgengir en yngri systir Bo, Ísey, keppir fyrir íslenska undir 15 ára landsliðið og stendur sig einnig afar vel.

Foreldrar standi ekki undir kostnaði íslenska landsliðsins

Segir Guttormur allt annað að vera með barn í breska landsliðinu en í því íslenska og bindur því vonir við að Ísey skipti yfir í breska landsliðið á næsta ári, þar sem erfitt sé að standa undir kostnaði þess íslenska.

„Það er ekkert grín að vera með krakka spilandi fyrir hönd Íslands og þurfa að standa undir kostnaði. Eins og hjá mér þá slefar þetta upp í 1,5 - 2 milljónir á sumri,“ segir Guttormur. 

Hann hafi oft gantast við yngri dótturina um að nú sé síðasta sumrið í íslenska landsliðinu og svo liggi leiðin rakleiðis í enska liðið. 

Hann segir þó synd og skömm að Ísland sjái ekki sóma sinn í því að styðja landsliðin sín í alla vega stærstu íþróttunum, enda ekki allir foreldrar sem geti staðið undir kostnaði. Það sé fjárfesting í fyrirmyndum.

„Mér finnst að Ísland ætti kannski að sjá um fimm stærstu sportin og segja bara: við gerum þetta almennilega.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert