Klára mögulega söluna á Íslandsbanka í vetur

Bjarni Benediktsson segir ýmislegt benda til þess að hægt verði …
Bjarni Benediktsson segir ýmislegt benda til þess að hægt verði að klára söluna á Íslandsbanka í vetur. Samsett mynd/mbl.is/Kristinn Magnússon

Forgangsmál ríkisstjórnarinnar á komandi þingvetri verða efnahagsmál, útlendingamál, orkumál, menntamál og samgönguáætlun. Ýmislegt bendir til þess að hægt verði að klára sölu á hlut ríkisins í Íslandbanka í vetur. 

Þetta segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra í samtali við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum.

Hann segir að fjárlög næsta árs og undirbúningur fyrir fjármálaáætlun séu þættir sem eiga stuðla að auknu jafnvægi í efnahagsmálum.

Fer eftir markaðsaðstæðum

„Það var ánægjulegt að fá heimild til að ljúka sölunni á Íslandsbanka á vorþinginu. Þannig efnahagsmálin verða áfram í brennidepli,“ segir Bjarni.

Heldurðu að það verði klárað að selja eftirstandandi hlut ríkisins í bankanum á þessu ári?

„Það verður á endanum að vera mat [fjármála]ráðuneytisins hvort að markaðsaðstæður séu góðar en það er ýmislegt sem bendir til þess að það sé raunhæft að losa um þann eignarhlut í vetur,“ segir hann.

Íslandsbanki í Smáranum.
Íslandsbanki í Smáranum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Orkumál áfram á dagskrá

Bjarni segir að ákveðnum áföngum hafi verið náð í orkumálum á vorþinginu en málið sé áfram á dagskrá fyrir komandi þing. Ekki tókst til dæmis að koma í gegn vindorkufrumvarpi á vorþinginu. 

„Það eru stór mál áfram til úrlausnar fyrir veturinn, til dæmis á sviði vindorku. Við þurfum að búa þannig um hnútanna að það verði hægt að afla þeirrar orku sem nauðsynlegt er fyrir uppbyggingu landsins áfram og í orkuskiptin,“ segir hann.

„Úrlausnarefni sem við þurfum að fást við“

Hann fagnar því að útlendingafrumvarp Guðrúnar Hafsteinsdóttur hafi verið samþykkt á vorþinginu en segir meira þurfi að gera í málaflokknum.

„Við erum að sjá vísbendingar um breytingu í aðsókn um umsóknir um hæli á Íslandi. Þar eru enn þá engu að síður úrlausnarefni sem við þurfum að fást við í vetur,“ segir Bjarni.

Guðrún hefur meðal annars greint frá því að hún hyggist leggja fram nýtt útlendingafrumvarp í haust og þá vill hún koma á fót mót­tökumiðstöð fyr­ir hæl­is­leit­end­ur þegar þeir koma til lands­ins.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Óttar

Samgönguáætlun og menntamál forgangsmál

Fyrir utan efnahagsmálin, útlendingamálin og orkumálin þá eru fleiri mál sem taka þarf á.

Ekki tókst að afgreiða samgönguáætlun úr þingi á vorþinginu og segir Bjarni að unnið verði að henni á komandi þingi.

„Menntamálin eru að komast aftur í kastljósið vegna þess að þar virðist vera þörf á breytingu, aðgerðum og inngripi til þess að bregðast við slæmum mælingum á árangri í menntakerfinu. Þetta eru mál sem ég myndi segja að væru í ákveðnum skilningi forgangsmál fyrir veturinn.“

Mikil umræða hefur verið um vandræði íslenskra grunnskóla. Ásmundur Einar …
Mikil umræða hefur verið um vandræði íslenskra grunnskóla. Ásmundur Einar Daðason er mennta- og barnamálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert