Myndskeið: Þjóðhátíðargestir lögðu heimilið í rúst

Þegar Vestmannaeyingurinn Skæringur Óli Þórarinsson kom að húsi sínu eftir Þjóðhátíð um síðustu helgi voru gluggakisturnar undirlagðar af notuðum nikótínpúðum og tyggjóklessum, rúða, glös og skápar höfðu verið brotin, kertastjakar rifnir af veggjum og rusl út um allt hús. 

Í færslu á Facebook-hópnum Heimaklettur segir Skæringur að liðsmenn hljómsveitarinnar Hubba Bubba og hópur tengdur þeim hafi haft húsið á leigu yfir verslunarmannahelgina og skilið svona illa við það.

Forsprakkar hljómsveitarinnar segjast aftur á móti ekki hafa dvalið í húsinu en að hópurinn í kringum Hubba Bubba sé stór. 

Glerbrot út um allt

Í samtali við mbl.is segist Skæringur vart geta lýst aðkomunni að húsinu en eiginkona hans tók myndskeið af því sem blasti við er fjölskyldan sneri heim í vikunni. 

Á myndskeiðinu, sem líta má í spilaranum hér að ofan, má meðal annars sjá skítug gólf, tómar dósir, pullur sem rifnar hafa verið úr sófa, gífurlegt magn af rusli, föt á víð og dreif um öll gólf og glerbrot.

Skæringur segir að þónokkuð af innanstokksmunum hafi verið eyðilagt.

„Það brotnaði rúða í útidyrahurðinni, það var búið að brjóta einhver glös, einhverja myndaramma, eldhúsklukkuna okkar, ljóskúpul af einu loftljósinu og það var búið að toga í eina skápahurðina inni í eldhúsi þannig að platan rifnaði upp,“ segir Skæringur og bætir við:

„Þeir voru ekki einu sinni að hafa fyrir því þegar þessi rúða brotnaði að hreinsa upp glerbrotin almennilega þannig við erum enn þá að finna glerflísar hér og þar út um alla íbúð. Eins og ég segi er ekki mjög spennandi að þora varla að leggja sjö mánaða gamalt barnið sitt frá sér af ótta við það að hún finni einhverja glerflís og stingi henni upp í sig.“

Mikið tjón

Skæringur segir að tjónið, með þrifum inniföldum, hafi hljóðað upp á rúmlega 200 þúsund krónur en að strákarnir sem leigðu húsið hafi aðeins borgað hluta af því.

„Þegar ég hringdi í þá fyrst gerði ég þeim grein fyrir að ég ætlaði að taka saman kostnaðinn við skemmdirnar og þrifin og að þeir myndu taka það og þeir svona umluðu því eitthvað til samþykkis en höfðu það ekki í sér þá að biðjast afsökunar.

En svo þegar ég var búinn að taka þetta saman fóru þeir að reyna að prútta sig niður þannig ég endaði á að samþykkja bara þá upphæð sem þeir greiddu og þá bara í blálokin kom ein lítil afsökunarbeiðni,“ segir Skæringur.

Spurður hvort hann muni einhvern tímann aftur geta hugsað sér að leigja húsið út yfir verslunarmannahelgina svarar hann því neitandi.

„Nei, ég sé ekki fram á það. Og ef svo ólíklega vill til verður það bara til einhvers sem ég þekki persónulega. Maður er mjög brenndur.“

Gistu ekki í húsinu

Eins og fyrr segir tók Skæringur fram í Facebook-færslunni að leigjendurnir tengist hljómsveitinni Hubba Bubba.

Við vinnslu fréttarinnar talaði blaðamaður við báða forsprakka sveitarinnar, Eyþór Whöler og Jón Pál Aðalsteinsson. Þeir sögðust hvorugir hafa gist í húsinu og ekki geta tekið ábyrgð á málinu. Eyþór viðurkenndi þó að hafa komið þangað.

Þá segir Eyþór marga tengjast hljómsveitinni og að hann geti ekki svarað fyrir alla.

Í myndbandinu má sjá hvernig aðkoman að húsinu var.
Í myndbandinu má sjá hvernig aðkoman að húsinu var. Skjáskot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert