Nafnbreytingar útlendinga 1.803

Skilríki fylgja ekki nafnbreytingunum.
Skilríki fylgja ekki nafnbreytingunum. mbl.is/Golli

Útlendingur sem er með lögheimili á Íslandi getur fengið nafni sínu breytt, enda þótt hann sé ekki íslenskur ríkisborgari. Þegar útlendingur sest að hér á landi fær hann „kerfiskennitölu“, þ.e. verði hann á landinu tímabundið, en fær þó ekki samþykkta breytingu á nafni sínu fyrr en viðkomandi er kominn með lögheimili á Íslandi. Þetta upplýsir Hildur Ragnars forstjóri þjóðskrár í samtali við Morgunblaðið.

„Það geta verið alls konar ástæður fyrir því að fólk vill breyta nafni sínu. Það vill falla betur inn í íslenskt samfélag er ein ástæðan, það getur verið erfitt að bera nafnið fram, sumir kvarta yfir því að komast ekki í atvinnuviðtöl heiti þeir útlensku nafni,“ segir Hildur.

„Það mega allir breyta fyrsta nafni sínu, en það eru meiri hömlur við því að breyta eftirnafni, þ.e. kenninafni,“ segir hún.

Fá engin skilríki eftir nafnbreytingu

Þegar þannig háttar til að útlendingur fær nafnbreytingu samþykkta hér á landi, þá fylgir íslenska nafnið honum ekki þegar hann fer af landi brott aftur.

Hildur segir einnig að fólk geti lent í vandræðum vegna þessa, þegar viðkomandi þarf að gera grein fyrir sér hér á landi þar sem vegabréf viðkomandi er með gamla nafninu. Útlendingar sem breyta nafni sínu hér á landi fá engin skilríki útgefin með íslenska nafninu, enda nafnskírteini einungis fyrir íslenska ríkisborgara að sögn Hildar. Gagnsemi nafnbreytingar fyrir erlendan ríkisborgara sé því takmörkuð.

Skoða lög um mannanöfn í haust

Samkvæmt upplýsingum frá þjóðskrá hafa 378 útlendingar, þ.e. fólk með erlent ríkisfang, fengið nafni sínu breytt það sem af er þessu ári. Í fyrra voru þeir 811 og 614 árið 2022.

Ef litið er til fólks með íslenskt ríkisfang hafa 1.442 slíkra breytt nafni sínu á þessu ári, í fyrra voru þeir 2.760 talsins og 2.762 árið 2022. Ekki kemur fram hjá þjóðskrá hvort þeir íslensku ríkisborgarar sem hér um ræðir séu af erlendum uppruna eður ei.

Samkvæmt upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu eru uppi áform um að skoða lög um mannanöfn heildstætt nú í haust. Umræða um nafnbreytingar fór á flug í kjölfar frétta um slíkar breytingar dæmdra glæpamanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert