Sparkaði í höfuð manns fyrir utan veitingastað

Héraðsdómur dæmdi mann í tíu mánaða fangelsi en skilorðsbatt refsingu …
Héraðsdómur dæmdi mann í tíu mánaða fangelsi en skilorðsbatt refsingu hans að hluta, meðal annars vegna ungs aldurs hans.

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt karlmann í tíu mánaða fangelsi, bundið skilorði að hluta, fyrir fíkniefna- og vopnalagabrot með því að hafa haft í fórum sínum piparúða, sem fannst við leit á honum við Austurvöll, og í sex tilfellum, við afskipti lögreglu, haft undir höndum samtals 10,7 grömm af kókaíni, 3,99 grömm af MDMA, 0,52 grömm af hassi og 1,39 grömm af maríjúana.

Auk þess var honum í málinu, en með annarri ákæru, gefið að sök brot gegn hegningarlögum með því að hafa ráðist að manni fyrir utan veitingastað í félagi við annan og sparkað í höfuð hans með þeim afleiðingum að hann hlaut áverka og í öðru tilfelli veist að öðrum manni og skorið hann í andlit með hníf sem hafði í för með sér rispu yfir hægra kinnbeini.

Brot gegn heilsu og velferð

Játaði ákærði sök í öllum ákæruliðum beggja ákæranna og var málið því tekið til dóms án sönnunarfærslu í kjölfar þess er sækjanda og verjanda hafði verið gefið færi á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Við ákvörðun refsingar ákærða var horft til þess að brot hans samkvæmt síðari ákærunni beindust gegn heilsu og velferð tveggja brotaþola og voru árásirnar grófar, hættulegar og tilefnislausar. Yrði, eftir því sem segir í rökstuðningi dómara, að telja mikla mildi að afleiðingar þeirra hefðu ekki orðið enn alvarlegri en þær urðu. Hafi vilji ákærði til brotanna verið styrkur og einbeittur.

Á móti var litið til ungs aldurs ákærða, stutts sakaferils og þess að hann játaði brot sín skýlaust auk þess að sýna iðrun fyrir dómi. Með hliðsjón af framangreindu þætti rétt að fresta fullnustu sjö mánaða og tíu daga af tíu mánaða fangelsisrefsingu og skulu eftirstöðvarnar falla niður að liðnum þremur árum.

Var ákærða gert að greiða allan sakarkostnað auk þóknunar skipaðs verjanda síns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert