Á sama tíma og búist er við eldgosi í nágrenni við Grindavík á hverri stundu hefur Grindavíkurnefnd lagt fram aðgerðaáætlun um framkvæmdir upp á 470 milljónir króna. Þar af mun Grindavíkurbær greiða 30 milljónir en ríkið 440 milljónir.
Stærsti hluti áætlunarinnar er um framkvæmdir við innviði bæjarins en þær fela meðal annars í sér viðgerðir á vegum, hækkun sjóvarna og mannheldar girðingar. Gunnar Einarsson, sem situr í Grindavíkurnefndinni, segir undirbúning þegar hafinn.
Spurður hvort að ráðist verði í framkvæmdirnar þrátt fyrir yfirvofandi gos segir hann: „Við hefjum hluta af þessu, byrjum til dæmis á að girða af svæði og erum að undirbúa aðgerðir og það tekur smá tíma. [...] En menn fara auðvitað ekki í aðgerðir þarna ef áhættumatið er þannig að það er ekki forsvaranlegt.“
Þorvaldur Þórðarsson, prófessor í eldfjallafræði, telur líklegt að gjósa fari í nágrenni við bæinn hvað úr hverju en telur þó ólíklegt að gosopið verið inni í Grindavík.
„Manni finnst nú mestar líkur á því að geymirinn fari af stað á næstu dögum og ef það gerist væri það bara endurtekið efni. Þá fáum við svipað gos og það sem byrjaði í lok maí og svo mun framvindan verða mjög svipuð. Það byrjar kannski með einhverjum látum en dettur fljótt niður,“ segir Þorvaldur.
Hann bætir við að ef það verður raunin og áfram haldi að safnast í kvikuhólfið undir Svartsengi geti gosmunstrið sem verið hefur haldið áfram í einhverja mánuði.
Meira um málið má sjá í Morgunblaði dagsins.