„Það er eitthvað stórt að fara að gerast“

„Það er bara staðreynd að ekki í marga áratugi hefur verið jafn ófriðvænlegt í heiminum. Það er einhvern veginn að allir vita að það er eitthvað stórt að fara að gerast. Og það er ekki bara á einhverjum einum stað. Það er á mörgum stöðum,“ sagði Björn Ingi Hrafnsson í Dagmálaþætti dagsins þegar rætt var um ástandið í heiminum. Hann telur fulla ástæðu til að hafa varann á gagnvart Putin komi til þess að stríðinu í Úkraínu ljúki.

Hann og Sigurður Már Jónsson voru gestir Dagmála til að ræða stjórnmálin hér heima og ástandið á alþjóða vettvangi. Sigurður Már hefur ekki sömu áhyggjur af mögulegum framgangi Rússa komi til loka stríðsins í Úkraínu. Hann segir báðum aðilum hafa blætt gríðarlega og hann telur mátt Rússa ekki það mikinn vegna átakanna, að þar muni menn hyggja á frekari hernaðaraðgerðir.

Björn Ingi vitnaði til samtala sem hann átti við bandaríska hermenn þegar hann fór til Úkraínu fyrir tveimur árum. Þeir sögðu honum að það væri svo margt að fara að gerast og svo víða að ástæða væri til að hafa miklar áhyggjur. Einn þessara manna benti honum á að ef fólk væri farið að velta fyrir sér hvort heimsstyrjöld væri að skella á þá væri hún líkast til þegar hafin.

Hér fylgir með hluti viðtalsins við þá Björn Inga og Sigurð Má þar sem þeir fara yfir horfur í heiminum. Þátturinn í heild sinni er aðgengilegur fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert