„Það er ekki búið að staðfesta nein fíkniefni“

Lögreglan reynir að átta sig á málinu.
Lögreglan reynir að átta sig á málinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ekki er ljóst hvort að fíkniefni tengist máli er varðar bát sem að kom til hafnar á Höfn í Hornafirði í gær. Um hafi verið að ræða tollaeftirlit sem vatt upp á sig. 

Þetta segir Jón Sigurgeirsson, lögreglufulltrúi hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is. 

„Það kemur bátur upp að landi í gær og við tollaeftirlit vöknuðu grunsemdir um að þarna væri eitthvað sem þyrfti að skoða betur. Þá komum við inn í þetta, miðlæg deild ásamt tollinum. Tollurinn var þarna með menn sem voru að koma úr Norrænu. Við erum að skoða málið betur og það er í rauninni enn bara verið að gera sig grein fyrir því hvort það sé eitthvað ólöglegt í gangi þarna eða ekki,“ segir Jón.

Ekkert staðfest

„Einhversstaðar las ég þarna áðan, mikið „magn fíkniefna“ og það er ekki búið að staðfesta nein fíkniefni,“ heldur Jón áfram.

Tveir menn hafi verið í bátnum sem sigldi til hafnar um klukkan þrjú eða fjögur. 

„Þessir menn eru bara saklausir í okkar huga þar til annað kemur í ljós,“ segir Jón.

Lögreglan sé að reyna að átta sig á því hvort að eitthvað ólöglegt hafi átt sér stað. Ekkert sé staðfest.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka