Umræða um ríkisfjármálin verið á „villigötum“

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ræddi við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum í …
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ræddi við mbl.is að ríkisstjórnarfundi loknum í morgun. AFP

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra segir að ríkisfjármálin hafi hjálpað til við að draga úr verðbólgu í landinu. Hann segir blasa við að raunvaxtastig hafi sveiflast verulega til á undanförnum árum.

Þetta segir ráðherrann í samtali við mbl.is.

Tólf mánaða verðbólga mæl­ist nú 6,3% og eykst um 0,46 pró­sentu­stig frá fyrri mánuði.

„Mér finnst að umræðan um þátt ríkisfjármálanna hafi verið á miklum villigötum. Það sýnir til dæmis nýjasti ríkisreikningurinn fyrir síðasta ár, þar sem afkoman var hundrað milljörðum betri heldur en fjárlög gerðu ráð fyrir þriðja árið í röð. Afkomubati í ríkisfjármálunum er gríðarlegur og líklega nálægt því að vera met-afkomubati,“ segir Bjarni.

Segir afkomubatann vera merki um aðhald

Margir hafa gagnrýnt útgjaldaaukningu ríkissjóðs á síðustu árum en Bjarni segir að afkomubati ríkissjóðs ár frá ári sé birtingarmynd aðhalds í ríkisfjármálunum.

„Þannig ríkisfjármálin hafa verið að hjálpa til við að draga úr verðbólgu í landinu undanfarin tvö ár, að lágmarki.“

Leggur Seðlabankanum ekki línurnar

Pen­inga­stefnu­nefnd­ Seðlabank­ans fundar seinna í mánuðinum og velta margir því fyrir sér hvort að Seðlabankinn haldi stýrivöxtum óbreyttum eða ekki.

Núna standa meg­in­vext­ir bank­ans, vext­ir á sjö daga bundn­um inn­lán­um, í 9,25% og hefur það verið svoleiðis síðan í ágúst á síðasta ári.

Spurður hvort að hann telji að það þurfi að fara lækka vexti þá segir Bjarni:

„Ég held að sé nú ekki skynsamlegt fyrir mig að fara leggja seðlabankanum einhverjar línur varðandi vaxtamálin. Ég bara virði hans sjálfstæði til þess að taka þær ákvarðanir,“ segir Bjarni.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Raunvaxtastigið sveiflast gríðarlega

„Það hins vegar blasir við okkur að raunvaxtastigið hefur sveiflast alveg gríðarlega á undanförnum árum, úr því að vera neikvætt – mögulega of lengi – yfir í það að vera mjög hressilega jákvætt og jafnvel vaxandi núna,“ segir hann. 

Bjarni segir að verkefnið hljóti að snúast um að fá mjúka lendingu í hagkerfinu. Hann nefnir að það geti þó verið vandasamt verk að stilla af bæði vaxtastig í landinu og umsvif að öðru leyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert