Alvarleg staða uppi og ríkisstjórnin aðgerðalaus

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, bendir á að Ísland skrapi …
Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, bendir á að Ísland skrapi botninn í alþjóðlegum samanburði. Staðan sé óviðunandi. Samsett mynd

Það er sorglegt til þess að hugsa að vegna aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar muni skorta allar samræmdar mælingar á námsárangri skólabarna í allnokkur ár.

Þetta segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, sem skrifar grein í Morgunblaðið í dag um stöðu íslenska grunnskólakerfisins.

„Niðurstaða síðustu PISA-mælingar var að meðal 15 ára barna voru 40% þeirra ekki fær um að lesa sér til gagns. Þessi börn ljúka því miður grunnskólanámi án þess að hafa nægilega sterkan grunn til að byggja á til frambúðar,“ skrifar Þorbjörg og heldur áfram:

„Sú staða er óásættanleg. Ísland skrapar nú botninn í alþjóðlegum samanburði og færri börn sýna afburðaárangur hér á landi. Lélegur lesskilningur takmarkar beinlínis getu barna til þátttöku í samfélaginu. Það speglar litla virðingu fyrir verkefninu að tala eins og þessar niðurstöður PISA séu annað en alvarlegar.“

Alvarleg teikn á lofti

Greinin fylgir í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar mbl.is og Morgunblaðsins undanfarnar vikur um slakan árangur menntakerfisins, afnám samræmdu könnunarprófanna og óljós áform skólayfirvalda um það sem koma á í staðinn.

„Menntamál eru hagsmunamál okkar allra. Auðvitað hafa foreldrar skólabarna skoðun á skólamálum og það væri reyndar mikið áhyggjuefni ef svo væri ekki. Langsamlega flestir foreldrar bera taugar til skóla barna sinna og vilja að nám þeirra gangi vel. Þjóðin öll vill að næsta kynslóð hafi færni til að takast á við áskoranir framtíðarinnar,“ skrifar Þorbjörg.

„Kennarar eiga að sama skapi skilið að um þessa stöðu sé rætt og ekki síður að brugðist sé við. Og vitanlega segja samræmdar mælingar ekki alla söguna af skólastarfi eða alla söguna af hæfni nemenda. Það vita í sjálfu sér allir. En eftir stendur að alvarleg teikn eru á lofti hvað þessa stöðu varðar og hafa verið um árabil.“

Þorbjörg bendir á að íslenska skólakerfið skrapi nú botninn í …
Þorbjörg bendir á að íslenska skólakerfið skrapi nú botninn í alþjóðlegum samanburði og að færri börn sýna afburðaárangur hér á landi. mbl.is/Hari

Skortir skýra stefnu og markmið

Hún segir stjórnvöld verða að vera skýr um stefnu sína og markmið í menntamálum.

„Svo er ekki í dag. Það verður að vera metnaður til að umgjörð skólastarfs sé þannig að börn nái sem bestum árangri í námi. Án þess verður skólinn ekki það jöfnunartæki sem hann á að vera og námsárangur barna fer í auknum mæli að byggjast á baklandi barna og aðstæðum heima fyrir.“

Þorbjörg rifjar upp heimsóknir þingflokks Viðreisnar í skóla fyrr á árinu. Kennarar hafi þá til dæmis nefnt stórar hópa- eða bekkjastærðir sem vandamál.

„Við heyrðum talað um skort á framboði námsefnis. Einnig af áskorunum tengdum því þegar börn sem enga íslensku kunna koma inn í skólana. Allt eru þetta þættir sem hægt er að bregðast við og bæta úr.

Lykilmarkmiðið þarf að vera að stjórnvöld geri allt sem í þeirra valdi stendur til að kennarar fái að gera það sem þeir gera best: að kenna. Það þarf að draga úr brottfalli nýrra kennara úr starfi sem er alltaf mikil blóðtaka fyrir gott skólastarf.“

Lýsir ekki virðingu fyrir verkefninu

Eins og ítrekað hefur komið fram í umfjöllun mbl.is þá hefur ekkert heildstætt samræmt mat á hæfni íslenskra grunnskólanema farið fram frá árinu 2021, þegar skólayfirvöld gáfust upp á því að leggja fyrir samræmd könnunarpróf vegna eigin tæknivandræða.

Óljóst er hvenær annað og nýtt námsmat verður að fullu innleitt í stað prófanna.

Hafa skólayfirvöld verið margsaga um þær fyrirætlanir sínar og ráðherrann Ásmundur Einar Daðason raunar farið með fullyrðingar sem stangast svo á við þær tímasetningar sem forstjóri nýju menntamálastofnunarinnar hefur gefið upp í viðtali við Morgunblaðið.

„Það er sorglegt til þess að hugsa að vegna aðgerðarleysis ríkisstjórnarinnar muni skorta allar samræmdar mælingar á námsárangri skólabarna í allnokkur ár,“ skrifar Þorbjörg.

„Eitt kerfi aflagt án þess að stjórnvöld hafi tryggt að annað tæki þá við í kjölfarið. Slík vinnubrögð lýsa ekki virðingu fyrir verkefninu af hálfu stjórnvalda enda hefur umboðsmaður barna óskað eftir skýringum frá mennta- og barnamálaráðherra. Erindi umboðsmanns segir eitt og sér mikla sögu af stöðu mála.“

Þorbjörg segir að ekki eigi að afskrifa alfarið samræmdar mælingar …
Þorbjörg segir að ekki eigi að afskrifa alfarið samræmdar mælingar í grunnskólum vegna þess eins að stjórnvöld vanræktu skyldu sína. mbl.is/Hari

„Þá er það orðið um seinan“

Hún tekur fram að endurgjöf á skólastarfi með samræmdum mælingum og prófum sé af hinu góða.

„Tilgangur þessara mælinga á fyrst og fremst að vera sá að hjálpa nemendum og kennurum, foreldrum og skólum og síðast en ekki síst stjórnvöldum að grípa nemendur þannig að það sé ekki bara ljóst í lok grunnskólagöngu að 40% geti ekki lesið sér til gagns. Þá er það orðið um seinan,“ skrifar þingmaðurinn.

Vitanlega þurfi að fara gætilega með slíkar samræmdar mælingar og niðurstöður þeirra.

„En það breytir ekki því að þær veita mikilvæga innsýn í skólastarf og hvar úrbóta er þörf. Né á að afskrifa samræmdar mælingar alfarið vegna þess eins að stjórnvöld vanræktu skyldu sína við að tryggja góða framkvæmd þeirra. Það þarf einfaldlega að gera betur.

Í löndunum í kringum okkur eru samræmd próf notuð. Mælingar sem þessar eru stuðningstæki og hugsaðar til að ná fram jafnrétti barna til náms.“

Göfugt starf kennara

„Kennarinn gegnir einu mikilvægasta og göfugasta hlutverki í lífi hvers barns. Það er okkar sem samfélags að hampa þessu göfuga starfi. Til að skólinn sé sá undirbúningur fyrir lífið sem við viljum þurfa kennarar að fá þær starfsaðstæður sem þeir þurfa.

Þá verður að ríkja skilningur á því að samtal um skólana og um markmið og hlutverk þeirra er auðvitað okkar allra. Ríkisstjórnin þarf síðast en ekki síst að sýna meiri metnað fyrir menntamálum en nú er. Staða barna krefst þess einfaldlega.“

Greinina alla má lesa í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert