Dag­björt Guð­rún á­frýjar 10 ára fangelsis­dómi

Dagbjört hefur áfrýjað.
Dagbjört hefur áfrýjað. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dagbjört Guðrún Rúnarsdóttir hefur áfrýjað tíu ára fangelsisdómi sem hún hlaut í héraðsdómi fyrir sérlega hættulega líkamsárás, sem leiddi til andláts sambýlismanns hennar í svokölluðu Bátavogsmáli. Þetta staðfestir verjandi Dagbjartar, Arnar Kormákur Friðriksson.

Dagbjört var upphaflega ákærð fyrir brot á 211. grein almennra hegningarlaga sem sem felur í sér manndráp af ásetningi. Hún var hins vegar dæmd fyrir brot á 218. grein laganna sem felur í sér líkamsárás sem leiðir til andláts en fyrir það brot var hún sakfelld.

Þyngri dómur mögulegur

Jón Þór Ólason, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, telur ekki ólíklegt að Dagbjört verði sakfelld fyrir brot á 211. grein hegningarlaga, þ.e. fyrir manndráp af ásetningi, í áfrýjunarmeðferð málsins og að dómurinn verði þar með þyngdur. Fordæmi eru fyrir því í svipuðum málum.

Í þessu samhengi nefnir hann gífurlega áverka á viðkvæmum svæðum sambýlismannsins, á tungubeini, barkakýli og hringbrjósksvæði.

„Það sem kemur fram í dóminum er að áverkar á manninum hafi reynst gríðarlegir og afleiðingarnar með þeim hætti að miðað við hliðsjón af dómafordæmum Hæstaréttar kunni það vel að vera að þetta verði fellt undir manndráp af ásetningi og þá mun hún hljóta þyngri dóm,“ segir Jón Þór og bætir við að þegar það telst sannað að um manndráp af ásetningi sé að ræða sé dómurinn yfirleitt 16 ár.

Dæmi um 14 ár í stað 7

Í þessu samhengi nefnir Jón Þór dóm yfir Vali Lýðssyni sem var árið 2019 dæmdur í 14 ára fangelsi fyrir að verða bróður sínum að bana. Í héraðsdómi var talið ósannað að manndrápið hefði verið af ásetningi og var hann upphaflega dæmdur í sjö ára fangelsi.

Málinu var hins vegar áfrýjað og taldi Landsréttur áverka hins látna sanna að ásetningur hefði verið til staðar og Valur því dæmdur fyrir brot gegn 211. grein hegningarlaga.

Leiðrétting:

Upphaflega stóð að Dagbjört hafi verið ákærð til vara fyrir brot á 218. gr.. Hið rétta er að dómur héraðsdóms heimfærði málið undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert