Dagur segir jákvætt að námsgögn séu ókeypis

Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs.
Dagur B. Eggertsson, formaður borgarráðs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dagur B. Eggertsson, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, segir jákvætt að boðið sé upp á ókeypis námsgögn og máltíðum í skólum borgarinnar. Orðræða Sjálfstæðisflokksins í þessum efnum komi honum á óvart. 

Áslaug Arna Sigurðardóttir, ráðherra háskóla, iðnaðar og nýsköpunar, skrifaði í vikunni pistil um málið sem birtist í Morgunblaðinu. Þar segist hún hafa áhyggjur af ókeypis námsgögnum í skólum, börnin kunni ekki að meta þau og engin virðing sé borin fyrir þeim. Þá telji húnn að ókeypis máltíðir og námsgögn eigi að virka sem jöfnunartæki en hafi nú leitt til óhóflegs kostnaðar og sóunar. 

Borgarstjórinn fyrrverandi er ráðherra ósammála og kemur því á framfæri í Facebook-færslu sem birtist fyrr í dag. Jákvætt sé í alla staði að hafa ókeypis námsgögn í grunnskólum borgarinnar. Það þýði aukinn jöfnuð og jafnræði meðal barna og spari auk þess foreldrum tíma og fjármuni í upphafi skólagöngu barna sinna.

Hann segir að útboð borgarinnar hafi skilað margfalt hagstæðari niðurstöðu en búist hafi verið við og foreldrar sömuleiðis hafi sparað sér tugi þúsunda í kostnað vegna námsgagnakaupa með hverju barni. 

Sjálfstæðisflokkurinn hafi lagst gegn breytingum

Í færslunni segir hann það koma sér á óvart að fólk sé að leggjast gegn þessu fyrirkomulagi sem hann segir vera jákvæða breytingu í þágu barnafólks. Þá segir hann Sjálfstæðisflokkinn orðinn ótengdan venjulegum fjölskyldum. 

„Einhverjir telja þetta til marks um að flokkurinn sé að „skerpa á hægri áherslunum“. Ég held þetta sé þó miklu frekar til marks um að flokkurinn sé algerlega kominn úr tengsl við venjulegar fjölskyldur sem eru að láta daginn, vikuna og mánuðinn ganga upp og veruleika vinnandi fólks í borginni og landinu,“ skrifar Dagur í færslu sinni.

Ókeypis máltíðir mikil kjarabót

Dagur nefnir að í haust standi til að bjóða uppá ókeypis máltíðir í grunnskólum borgarinnar, sem hann telur vera umtalsverð kjarabót fyrir barnafólk.

„Þessi aðgerð er mun umfangsmeiri og dýrari en ókeypis námsgögn en áhrifin á kjör barnafjölskyldna þeim mun meiri og jákvæðari. Sveitarfélögin hefðu sannarlega ekki haft svigrúm til að gera þetta nema vegna hófstilltra kjarasamninga og fjárhagslegs stuðnings ríkisins. Breytingin er til næstu ára - en verður vonandi varanleg,“ skrifar Dagur. 

Hann bendir jafnframt á að ókeypis skólamáltíðir hafi ekki komið af sjálfu sér heldur séu þær að verða að veruleika eftir mikla baráttu verkalýðshreyfingarinnar og félagshyggjufólks í sveitarfélögunum í aðdraganda síðustu kjarasamninga. Þar skýtur hann á Sjálfstæðisflokkinn og segir hann hafa unnið gegn þeirri baráttu en þakkar það Vilhjálmi Birgissyni verkalýðsleiðtoga á Akranesi og fleirum úr röðum stéttarfélaga og ekki síst stuðningi Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra, að þetta mál svo og nýjir kjarasamningar hafi náð fram að ganga.

Færslu Dags má sjá hér að neðan. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert