Einn stunginn og sérsveitin kölluð til

Sérsveit ríkislögreglustjóra var send á vettvang.
Sérsveit ríkislögreglustjóra var send á vettvang. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Einn var stunginn í lærið í íbúðarhúsnæði í Bakkahverfinu í Breiðholti um klukkan 13.00 í dag. Tveir bílar frá sérsveit ríkislögreglustjóra voru sendir á vettvang.

Þetta staðfestir Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við mbl.is.

„Það kemur til slagsmála þar sem þeir eru staddir og það endar þannig að annar þeirra dregur upp hníf,“ segir Gunnar um átök mannanna tveggja. Fleiri hafi þó verið í íbúðinni.

Hefur áður komið við sögu í svipuðum málum

Meintur árásarmaður, sem er að sögn Gunnars, 24 ára karlmaður, var handtekinn á vettvangi og vistaður í fangaklefa í annarlegu ástandi. Yfirheyrslur bíði þar til rennur af honum. Maðurinn hafi áður komið við sögu hjá lögreglu vegna svipaðra mála.

Sá slasaði sé 30 ára karlmaður og var hann fluttur á slysadeild með sjúkrabíl. Meiðslin séu ekki talin alvarleg og voru viðráðanleg á vettvangi.

Helena Rós Sturludóttir, upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra, staðfesti að tveir bílar hefðu verið sendir frá sérsveitinni. Vísir greindi fyrst frá aðkomu sérsveitarinnar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert