Engin virðing fyrir skóladótinu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, lýsir því yfir að markmið gjaldfrjálsra námsgagna og skólamáltíða eigi að vera að stuðla að jöfnum tækifærum, en telur að framkvæmdin hafi leitt til óhóflegs kostnaðar og sóunar. Í samtali við Morgunblaðið útskýrði Áslaug að fjármagn sé nú varið til allra, óháð þörf.

„Við erum að verja fjármunum til allra í staðinn fyrir að beina þeim til þeirra sem að þurfa á þeim að halda,” segir Áslaug Arna, sem bendir á að fjármagn ríkis og sveitarfélaga sé nýtt með óskilvirkum hætti. Hún segir að gagnrýnin á pistil sem hún skrifaði og birtist á dögunum í Morgunblaðinu hafi gert lítið úr viðhorfum þeirra sem hún hefur rætt við undanfarna mánuði og hafa áhyggjur af áhrifum gjaldfrjálsra námsgagna.

„Ég hef heyrt þessi viðhorf kennara sem og foreldra, en aðallega frá kennurum, um að virðingin fyrir skóladótinu, það er að segja stílabókum og skriffærum og öðru slíku, hafi dalað mjög eftir að þetta varð frítt,“ segir Áslaug Arna. Hún bendir á að tilfinning fyrir ábyrgð og umhyggju fyrir eigum hafi minnkað þegar börnin eiga ekki lengur hluti sína sjálf.

Má ekki gera lítið úr upplifun

Áslaug Arna vísar einnig til ákvörðunar Hafnarfjarðar um að draga úr gjaldfrjálsum námsgögnum vegna aukinnar sóunar. Hún segir að það megi ekki gera lítið úr þeirri upplifun sem sveitarfélög og kennarar hafi haft af slíkum stefnumótunum.

„Við viljum tryggja jöfn tækifæri óháð efnahag, en við viljum beina stuðningnum þangað sem hann á heima, ekki að vera að greiða undir þá sem þurfa ekki á því að halda,“ segir Áslaug Arna. Hún leggur áherslu á að samfélagið ætti frekar að einbeita sér að því að lækka skatta og gjöld almennt, svo fólk hafi meira á milli handanna, en um leið að veita þeim stuðning sem raunverulega þurfa á stuðningi að halda.

„Maður veltir bara fyrir sér hvað er næst? Við förum alltaf lengra og lengra í að greiða niður hluti fyrir alla í stað þess að lækka skatta og gjöld almennt svo fólk hafi meira á milli handanna,“ segir Áslaug Arna að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert