Hópslagsmál, barnavernd og fölsuð skilríki

Annasöm nótt hjá lögreglunni.
Annasöm nótt hjá lögreglunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Annasöm nótt er að baki hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hópslagsmál, of hraður akstur, skemmtistaðaeftirlit og ölvun einkenndi nóttina.

73 mál voru bókuð frá klukkan 17.00 til 05.00 og gistu fimm í fangaklefa.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.

Einnig hafi lögreglan verið kölluð til vegna hópslagsmála í miðbænum í nótt, þrír voru handteknir og vistaðir í fangaklefa vegna málsins. Þá hafi einn líklega endað nefbrotinn og annar rotaður eftir högg.

Framvísaði fölsuðum skilríkjum

Skemmtistaðaeftirlit í miðbænum endaði með aðkomu barnaverndaryfirvalda en lögreglumenn tóku eftir aðila sem virtist of ungur til þess að vera inni á skemmtistaðnum.

Framvísaði ungmennið í kjölfarið fölsuðum skilríkjum og reyndist vera undir lögaldri en auk barnaverndaryfirvalda voru foreldrar ungmennisins látnir vita.

Ók á bíl á rafhlaupahjóli

Þá var lögreglan kölluð til vegna aðila sem að sparkaði í bifreiðar, þekkti lögregla til einstaklingsins en kvartað hafði verið undan honum fyrr um kvöldið vegna ölvunarláta. Ekki var hægt að tjónka við manninn og var hann færður í fangageymslu þar til rennur af honum.

Lögreglan var einnig kölluð til þar sem að maður á rafhlaupahjóli ók á bifreið en sem betur fer urðu engin slys á fólki.

Einnig voru sex ökumenn handteknir grunaðir um akstur undir áhrifum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert