Rafleiðni fer hækkandi og varað við gasmengun

Rafleiðni hefur hækkað.
Rafleiðni hefur hækkað. mbl.is/Jónas Erlendsson

Rafleiðni fer hækkandi í Skálm og Múlakvísl, vatnshæðin er þó nokkuð stöðug á báðum stöðum.

„Þetta er ekki eins stór atburður og var fyrir tveimur vikum síðan,“ segir Elísabet Þórdís Hauksdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Veðurstofan varar við gasmengun og hvetur fólk til þess að halda sig frá svæðinu. Brennisteinslykt gæti fundist við upptökin.

Halda áfram að fylgjast með

„Vatnshæðin hefur ekki hækkað þannig að það sé eitthvað flóð að fara að gerast en við höldum áfram að fylgjast með,“ segir Elísabet.

„Þetta er hækkun í rafleiðni í þessum tveimur ám sem að gefur merki um að þetta sé jarðhitaleki úr Mýrdalsjökli. Það er mjög algengt á þessum tíma að það komi jarðhitaleki úr jöklunum. Þetta gæti farið í flóð, eins og það var, en það stefnir ekki í það núna því við sjáum enga hækkun á vatnsmagni í ánum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert