Þórkatla greiðir ekki fasteignagjöld

Fannar Jónsson, bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónsson, bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Afar þröng fjárhagsstaða blasir við Grindavíkurbæ og helstu tekjustofnar brostnir. Útsvarsgreiðendum í Grindavík hefur fækkað um 30% frá 10. nóvember og Fannar Jónasson bæjarstjóri segir að ein sviðsmynd sem unnið er með geri ráð fyrir að íbúafjöldi Grindavíkur fari úr 3.700 í 500 manns í kringum áramótin.

Í Grindavík eru um 1.150 – 1.200 íbúðarhús og Þórkatla ehf. hefur nú þegar keypt upp 900 íbúðir. Samkvæmt lögum greiðir þetta íbúðauppkaupafélag ríkisins ekki fasteignagjöld og því missir bærinn tekjur af fasteignagjöldum þeirra eigna.

Búa að góðri fjárhagsstöðu

Fannar segir að fjárhagsstaða Grindavíkur við upphaf þessara atburða hafi verið gríðarlega góð og mikið betri en hjá flestum sveitarfélögum landsins.

„Við höfum engar vaxtaberandi skuldir og áttum ágætissjóði. Fyrir bragðið vorum við betur í stakk búin að takast á við þetta heldur en margir aðrir. Grindavík er eftir sem áður starfandi sveitarfélag með þeim skyldum sem þarf að sinna.“

Fleiri flytja þegar skóli hefst

Hann segist ekki hvetja fólk sem er með börn til að vera með lögheimili í Grindavík og segist eiga von á því að barnafjölskyldur flytji lögheimili sín í auknum mæli nú þegar skólahald hefst.

„Við innheimtum ekki fasteignagjöld af fyrirtækjum sem eru með starfsemi í þéttbýlinu. Öðru máli gegni um fasteignir utan þéttbýlisins eins og í Svartsengi, sem eru á öðru svæði samkvæmt hættumatskorti og starfsemi bæði hjá HS Orku og Bláa lóninu.“

Fannar segir að þriðji stóri tekjustofninn sé Jöfnunarsjóður sveitarfélaga, sem verði rýr á næsta ári. Fjórði tekjustofninn séu ýmiskonar þjónustutekjur af höfninni og fleiri B-hluta stofnunum sem séu verulega skertar líka.

Funda með Jöfnunasjóði

Árni Þór Sigurðsson formaður Grindavíkurnefndar segir að útsvarsgreiðendum í Grindavík hafi fækkað um 30% frá 10. nóvember og að útsvarstekjur dragist saman í sama takti.

„Þegar bæði fasteignagjöldin og útsvarið hrynja sjá menn í hendi sér að ástandið er alvarlegt. Jafnvel þó að búið sé að segja upp kennurum og leikskólakennurum þá er bærinn áfram með einhverja starfsemi og skyldur samkvæmt sveitarstjórnarlögum gagnvart sínum íbúum.“ Fram undan sé fundur með Jöfnunarsjóði, Grindavík og Grindavíkurnefndinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert