Tjón á kartöfluökrum vegna flóða

Mikið vatn hefur safnast fyrir ofan bráðabirgðabrú yfir Hoffellsá.
Mikið vatn hefur safnast fyrir ofan bráðabirgðabrú yfir Hoffellsá. Ljósmynd/Oddleifur Eiriksson

Talsverð flóð hafa verið undanfarið í Hornafirði sem stafa af mikilli úrkomu á þeim slóðum, en framkvæmdir við vega- og brúargerð yfir Hornafjarðarfljót hafa hamlað því að náttúrulegt útrennsli Hoffellsár og Laxár á Nesjum skili vatninu til sjávar.

Þetta hefur valdið tjóni á landi og kartöfluökrum og segir Eiríkur Egilsson bóndi á Seljavöllum í samtali við Morgunblaðið að heimamenn hafi margsinnis varað við því að þetta ástand kynni að koma upp. Á þau aðvörunarorð segir hann að ekki hafi verið hlustað.

Eiríkur bendir á að það skilyrði hafi verið sett fyrir framkvæmdaleyfi brúar yfir Hornafjarðarfljót að vatn myndi drena í gegnum vegfyllingu sem liggur að bráðabirgðabrú yfir Hoffellsá. Hafi eftirlitsmaður með verkinu talið að það myndi gerast sem hafi ekki orðið, þar sem vegfyllingin hafi verið svo há að ekkert vatn kæmist þar yfir. Ekki hafi verið fallist á ósk um að lækka fyllinguna og því flæði vatn um ræktarlönd bænda og valdi verulegu tjóni á uppskeru.

Vatnið veldur verulegu tjóni.
Vatnið veldur verulegu tjóni. Ljósmynd/Oddleifur Eiriksson

Þarf ekki mikla rigningu til að valda tjóni

Kartöflur og korn er ræktað á svæðinu og land liggur frekar lágt og þegar rignir að einhverju ráði ræsist vatnið ekki fram.

„Það þarf ekki sérlega mikla rigningu til þess að vatn safnist saman ofan við vegfyllinguna,“ segir Eiríkur og bendir á að brúarhafið á bráðabirgðabrúnni sé ekki nema um 30 metrar og hleypi ekki nægjanlega miklu vatni í gegn.

„Við bentum á þetta vandamál í vor, en við því hefur ekki verið brugðist,“ segir hann, en Vegagerðinni, innviðaráðherra og fleiri ráðamönnum hafi verið sent bréf þar sem þessu ástandi er lýst. Einungis hafi 1. þingmaður Suðurkjördæmis haft samband vegna þessa og tekið undir áhyggjur heimamanna. Eiríkur hefur áhyggjur af framhaldinu, enda spáð rigningartíð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert