„Ég er mikil talskona frelsis. Mér finnst að frelsið mætti eiga fleiri vini hér í Alþingishúsinu. Flestir þingmenn í þessu húsi kalla sig frjálslynda, sem mér finnst í sumum tilvikum vera bull. Það fer ekki saman að tala um frjálslyndi og tala síðan stöðugt um að að ríkið verði að hafa vit fyrir fólki,“ segir Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, í ítarlegu viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins.
Um ríkisstjórnarsamstarfið segir hún:
„Þetta er mikið ólíkindasamstarf og það er vissulega oft mjög erfitt. Mér finnst Sjálfstæðisflokkurinn hafa gefið of mikið eftir gagnvart Vinstri grænum en veit að Vinstri grænum finnst líka að þeir hafi gefið of mikið eftir gagnvart okkur.“
Hildur leggur áherslu á nauðsyn málamiðlana í ríkisstjórnarsamstarfinu.
„Við Sjálfstæðismenn náum ýmsu í gegn í málamiðlunum, þótt það sé kannski ekki alltaf augljóst út á við. Fólk getur til að mynda ímyndað sér hversu margar skattahækkanir hafa verið bornar á borð í gegnum árin sem við sjálfstæðismenn höfum hvað eftir annað hafnað.“
Hún segir að í sínum huga sé útilokað að ríkisstjórnarsamstarfið haldi áfram eftir næstu kosningar.
Rætt er ítarlega við Hildi í sunnudagsblaði Morgunblaðsins.