Víða fólksfjölgun á landsbyggðinni

Fólksfjölgun er víða, til dæmis í Skorradalshreppi.
Fólksfjölgun er víða, til dæmis í Skorradalshreppi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Íbúafjöldi í Skorradalshreppi tók heldur betur kipp á árinu, í það minnsta hlutfallslega, því fjölgað hefur um 30,5% í sveitarfélaginu á síðustu átta mánuðum.

Þjóðskrá birti fyrir helgi tölur yfir íbúafjölda í sveitarfélögum á Íslandi hinn 1. ágúst síðastliðinn en tölurnar þar á undan sem fyrir liggja eru frá 1. desember 2023. Í Skorradalshreppi fjölgaði um 18 íbúa á þessu tímabili og eru þeir nú 77 talsins.

1,8% á höfuðborgarsvæðinu

Víðast hvar á landinu fjölgar íbúum og virðist sem landsbyggðin sé að eflast í þeim efnum í samanburði við byggðaþróunina á fyrsta áratug aldarinnar og undir lok þeirrar síðustu. Á Suðurlandi fjölgaði um 3,1%, á Vesturlandi 2,1%, á Austurlandi um 1,5%, Norðurlandi eystra 1,3%, Norðurlandi vestra 1,0% og á Vestfjörðum um 0,7%.

Íbúafjölgun á höfuðborgarsvæðinu var 1,8% og á landinu öllu 1,6%, samkvæmt skráningu Þjóðskrár. Af 63 sveitarfélögum fækkaði íbúum í 11 þeirra en þeim fjölgaði eða fjöldinn stóð í stað í 52 sveitarfélögum.

Yfir 4.000 í Ísafjarðarbæ

Sé til dæmis horft til Vestfjarða voru fluttar fréttir af fækkun íbúa þar nánast á ári hverju í mörg ár. Þar hefur orðið breyting á, hvort sem það er á sunnanverðum eða norðanverðum Vestfjörðum. Íbúar í Ísafjarðarbæ eru nú komnir yfir 4.000 í fyrsta skipti í langan tíma. Þar fjölgaði um 67 manns sem er 1,7% fjölgun.

Íbúafjöldi í nýja sveitarfélaginu Vesturbyggð er 1.447 en fyrr á þessu ári sameinuðust Vesturbyggð og Tálknafjörður. Í sveitarfélaginu eru einnig byggðarkjarnarnir á Bíldudal og Patreksfirði.

Á Ströndum er þó ekki sama þróun en fækkun varð í Strandabyggð um 2,3% og 1,9% í Árneshreppi.

Meira má lesa í Morgunblaði dagsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka