Eins og að vera með hníf í tánni

Logi hefur æft dans frá fjögurra ára aldri.
Logi hefur æft dans frá fjögurra ára aldri. mbl.is/Ásdís

Í móttöku á stofu sjúkraþjálfara situr Logi Guðmundsson og svarar kurteislega í síma þegar kúnnar hringja. Í fljótu bragði virðist hann venjulegur unglingur, hávaxinn og grannur, að vinna sína sumarvinnu.

En Logi hefur ekki farið sömu leið og jafnaldrar hans og er allt annað en venjulegur unglingur. Hann hefur lagt á sig mikið erfiði allt frá barnsaldri við ballettæfingar og náð langt á sínu sviði, þrátt fyrir ungan aldur.

Eftir tvö ár í ballettnámi í einum virtasta ballettskóla heims, hjá San Francisco-ballettinum, er hann einn af fáum nemendum sem fá að þreyta svokallað nemaár. Að því loknu verður hann fullgildur atvinnudansari og allar dyr munu standa honum opnar.

Áhugi og ástríða vaknaði

Átta ára gamall, árið 2015, hóf Logi að æfa ballett hjá Listdansskóla Íslands og þótti strax efnilegur, yngstur í hópnum.

„Ég hafði smá forskot því ég hafði verið í dansi svo lengi. Mér fannst þetta fyrst ekki áhugavert því ég var að koma úr stuði og stemmningu í samkvæmisdansinum yfir í þetta agaða umhverfi þar sem ekki mátti tala og maður þurfti að halda einbeitingu. Ég var vanur að gera samba og tjatjatja en þetta var allt öðruvísi,“ segir Logi og nefnir að vinum hans í skólanum hafi þótt það nokkuð flott að hann væri dansari.

„Það var borin virðing fyrir mér. Ég gat farið í splitt, var bestur í íþróttum og sundi og vann píptest. Ég var íþróttakappi og mjög góður í hlaupi. Þannig að skólafélagar og vinir sáu að ég var íþróttastrákur, þó ég væri að „tipla á tánum“,“ segir hann og segist fljótlega hafa fundið sig í ballettinum.

„Þegar ég fór að ná færni í erfiðum sporum vaknaði mikill áhugi og ástríða.“ 

Afþakkaði nám í San Francisco

Logi fékk inngöngu í virtan ballettskóla í Amsterdam en það var þó ekki skrifað í skýin því örlögin gripu í taumana.

„Mér var boðið á fjögurra vikna sumarnámskeið hjá San Francisco-ballettinum og fékk námsstyrk frá Helga Tómassyni en hann hafði séð myndband af mér dansa og bauð mér. Ég ætlaði á sumarnámskeiðið og þaðan til Amsterdam og tók þetta eins og æfingabúðir, en margir þarna notuðu námskeiðið sem eins konar inntökupróf í skólann og þurftu þá ekki að fara í gegnum inntökupróf. Í síðustu vikunni var ég kallaður inn á skrifstofu og mér boðin skólavist. Ég sagði þeim að ég væri á leiðinni í skóla í Amsterdam, en ég var svo lélegur í ensku að þetta var klaufalegt samtal, svolítið „lost in translation“, ef ég má sletta,“ segir Logi og segir samtalinu hafa verið lokið þegar hann tjáði þeim að hann væri kominn inn í annan skóla.

„San Franscisco-skólinn er einn sá besti í heimi, og þótt Amsterdam-skólinn sé líka frábær er hinn betri. Svo sagði ég engum frá þessu samtali, hvorki mömmu né pabba. Þarna voru vinir mínir sem höfðu sótt um sem komust ekki inn en ég gerði ekki neitt og var ekki að hugsa um þetta sem inntökupróf.“

Logi Guðmundsson er átján ára Hafnfirðingur sem er að ná …
Logi Guðmundsson er átján ára Hafnfirðingur sem er að ná undraverðum árangri í ballett. mbl.is/Ásdís

Logi hafði þarna hafnað boði um skólavist í einum virtasta ballettskóla heims.

„Við fjölskyldan fórum út að borða á afmæli mömmu og þá sagði ég þeim þetta í gamni. Þau sögðu mér að þetta væri of gott boð til að sleppa og ég sendi því tölvupóst um að ég hefði áhuga. Ég vissi þá eftir námskeiðið að heimavistin væri fín, skólinn á flottum stað og kennararnir góðir. Þannig að þetta hentaði betur,“ segir Logi sem hóf því nám í ballett sextán ára gamall í San Francisco.

Verður erfiðasta ár lífs míns

Námið er afar stíft, endalausar æfingar þar sem tæknin er æfð þar til fullkomnun er náð.

„Ég er í ballett, að læra að dansa með félaga, að læra balletttækni og eins þjóðdansa í ballettbúningi auk nútímadans. Þess á milli erum við í pílates, teygjutímum, þol- og lyftingatímum. Síðan lærum við kóreógrafíu og eftir ballettæfingar er yfirleitt annar balletttími þar sem við lærum stór og erfið spor,“ segir Logi en í náminu voru um tíu strákar og tuttugu stelpur. Logi segir mikla samkeppni ríkja meðal nemenda og virðingu borna fyrir þeim sem eru bestir. Eftir tveggja ára ballettnám er Logi nú að fara á svokallað nemaár, en að því loknu verður hann fullgildur atvinnumaður í dansi. Ekki komast allir upp á nemaárið; aðeins þeir bestu.

„Síðasta árið í náminu var mjög stressandi, enda útskriftarárið og það vildu allir komast í nemaprógrammið en það fengu bara örfáir.“ 

Ungi Hafnfirðingurinn notar hvert tækifæri til að æfa sporin.
Ungi Hafnfirðingurinn notar hvert tækifæri til að æfa sporin.

Logi segist spenntur fyrir haustinu en jafnframt stressaður.

„Þetta verður eitt erfiðasta ár lífs míns.“ 

Dansað með inngróna nögl

Færðu aldrei sviðsskrekk?

„Jú, sérstaklega á útskriftarsýningunni. Þar þurfti ég að sanna mig, að ég ætti skilið að komast í nemaprógrammið því þarna voru aðrir sem ekki komust inn. Það var mikil pressa á að gera engin mistök. Svo voru þarna risastór nöfn í ballettheiminum að horfa á. Þetta voru þrjár sýningar og í þeim tveimur síðustu var ég með inngróna tánögl, svoleiðis að drepast! Það var að duga eða drepast. Það var ekki annað í stöðunni. Mamma og pabbi voru komin yfir hálfan hnöttinn og ég sagði þeim að ég væri ekki viss um að ég kæmist á svið því ég gat varla gengið. Þetta var eins og að vera með hníf í tánni. En fyrir sýningu tók ég verkjalyf og fór á svið þó þetta hafi verið ógeðslega vont og ég náði ekki að njóta. En adrenalínið fær mann til að gleyma sársaukanum.“

Fetar í fótspor Helga

Í sumar hefur Logi haft í nógu að snúast, enda í tveimur vinnum, í skapandi sumarstörfum og í fjarnámi í Versló, auk ballettæfinga.

„Ég þarf að halda mér í formi því að það er ekki í boði að koma til baka í verra formi. Margir af þessum krökkum eru svo ríkir að þeir þurfa ekkert að vinna og eru á endalausum sumarnámskeiðum. Ég þarf auðvitað að vinna, eins og aðrir íslenskir krakkar.“

Hver er draumurinn?

„Ég myndi vilja dansa með San Francisco-dansflokknum eða jafnvel með góðum dansflokki í Evrópu. Þá væri ég líka nær Íslandi og gæti alltaf skotist heim,“ segir hann og segir The Royal Ballet í London og Paris Opera Ballet vera ofarlega á óskalistanum.

Skemmtilegast finnst Loga að sýna á sviði með bestu dönsurum …
Skemmtilegast finnst Loga að sýna á sviði með bestu dönsurum heims.

Er Helgi Tómasson þín fyrirmynd?

„Já, alveg! Ég hef oft spjallað við Helga og allir bera virðingu fyrir honum. Kennarar og nemendur voru gáttaðir á að ég væri að spjalla við hann því hann er algjör fyrirmynd og goðsögn. Hann kom San Francisco-ballettinum á þann stað sem hann er á. Þegar ég er alveg að drepast hugsa ég oft, hvað myndi Helgi gera? Svarið er, hann myndi halda áfram. Við erum báðir frá Íslandi og fyrst hann komst svona langt, þá get ég það líka.“

Ítarlegt viðtal er við Loga í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert