Verk listamannsins Stefáns Óla Baldurssonar má sjá á mörgum húsveggjum víðs vegar um Reykjavík og á veitingastöðum. Myndefnið sækir hann oftar en ekki í gamlar ljósmyndir, stundum svarthvítar, sem hann svo málar í lit eftir eigin innblæstri.
Bakgrunnur Stefáns Óla er óvenjulegur og segja má að hann komi að vissu leyti að listinni frá jaðrinum.
„Ég hef alltaf verið að prófa mig áfram, frá því ég man eftir mér. Ég man til dæmis að þegar ég var níu ára og úti að leika með krökkunum þá klifruðum við upp á þak leikskólans. Einhver rétti mér spreybrúsa og ég skrifaði á þakið „Stebbi er cool“. Tuttugu mínútum síðar kom ég heim og mamma var búin að frétta af þessu. Ég var „böstaður“ á innan við tuttugu mínútum! Ég veit núna hver sagði henni en nefni engin nöfn hér. Þá byrjaði maður að nota einhver leyninöfn svo mamma eða einhver annar kæmust ekki að þessu hjá mér,“ segir Stefán Óli sem tók upp listamannsnafnið Mottan.
„Síðan eignaðist ég vini í FB sem voru að gera svona lagað, það hefur alltaf dottið inn einn og einn vinur sem var að skreyta veggi og fyrr en varði var maður kominn í samfélag af fólki sem var að gera „graffítí“. Fólk sem er að þessu er hins vegar bara forvitið og að finna sinn eigin stíl frekar. Sumir líta á þetta sem skemmdarverk en fyrir þá sem eru að þessu þá er þetta ævintýri og hálfleynilegt tungumál sem fáir skilja. Þarna má greina mjög mismunandi hugsunarhátt. Það væri óskandi að til væru fleiri staðir sem gerðu fólki kleift að þróa tæknina. Þá væri gaman að geta gengið fram hjá og séð ný verk, þarna eru oft mjög hæfileikaríkir listamenn á ferð.“
Stefán Óli lærði húsasmíði, listnám í FB og fór loks í Listaháskólann um stund. „Ég útskrifaðist ekki úr neinni af þessum fínu stofnunum en kannski reyni maður að klára háskólann við tækifæri,“ segir Stefán Óli. „Maður prófar sig bara áfram og finnur sína eigin leið. Ég fann mig til dæmis ekki í Listaháskólanum en kynntist þar samt mörgum sem eru vinir mínir í dag. Þar var bara ekki verið að kenna þá tækni sem ég heillast hvað mest af í myndlistinni.“
Inntur eftir því hvernig hann hafi þá náð svo góðum tökum á tækninni segir Stefán mikla þjálfun liggja að baki. „Maður pikkar upp hluti héðan og þaðan. Svo prófar maður sig áfram með það sem maður sér. Maður fyrst og fremst lærir af því að gera. Ég hef verið að mála frá því ég var barn og þetta liggur kannski betur fyrir mér en öðrum en þetta er samt líka fyrst og fremst tíminn sem maður gefur í þetta.“
Stefán Óli lýsir því hvernig hann leiddist út í starf listamannsins sem eðlilegri framvindu og í dag nær hann að lifa á listinni. „Maður hefur verið dreginn út í þetta. Þegar ég var að fara í Listaháskólann þá datt mér ekki í hug að ég gæti unnið við þetta í fullu starfi. Þetta var miklu frekar einhvers konar „lífsstílsprójekt“ hjá mér. Þetta virðist samt alveg ganga í dag,“ segir Stefán Óli en allur gangur er á því hvernig verkefnin komi til hans. „Fyrst sá ég einhvern mála á vegg og hugsaði með mér að ég gæti nú alveg gert eitthvað svona. Þá fór ég að banka upp á og spyrja hvort ég mætti mála á veggina. Svo fór þetta að spyrjast út og fólk kom til mín og bað um listaverk á veggina sína.“
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út fimmtudaginn 8. ágúst.