Annasöm nótt er að baki hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Tilraun til innbrots víða, ölvun og árekstrar lituðu nóttina ásamt slagsmálum. Þá neitaði einn að fara að fyrirmælum lögreglu og var vistaður í fangageymslu í kjölfarið
Í dagbók lögreglu kemur fram að frá 17:00 í gær til klukkan 05:00 í morgun hafi lögreglan sinnt 83 málum. Nokkuð var um útköll vegna veikinda og fólks í annarlegu ástandi. Þá sinnti lögregla einnig þónokkrum útköllum vegna samkvæmishávaða.
Nokkur slagsmál komu upp í miðbænum og tvo umferðaróhöpp sem voru þó bæði minniháttar. Þá voru tilraunir til innbrota gerðar í geymslugáma í 101 og er málið í rannsókn.
Óskað var eftir aðstoð lögreglu vegna ölvaðs ungmennis í Hafnarfirði. Var hann færður á lögreglustöð þar sem foreldrar komu og sóttu hann. Þá var aðstoðar lögreglu einnig óskað vegna slagsmála í ölhúsi í Hafnarfirði og var það afgreitt á vettvangi.
Ekið var á hjólreiðamann í Kópavogi með þeim afleiðingum að fótur hans aflagaðist. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á sjúkrahús til nánari skoðunar. Þá veittist einn að strætóbílstjóra og olli eignaspjöllum en málið er til rannsóknar.
Að lokum var óskað eftir aðstoðar lögreglu vegna óláta í strætisvagni í Garðabænum. Einn einstaklingur í annarlegu ástandi var handtekinn eftir að hann hafði neitað að segja til nafns og framvísa skilríkjum. Er hann vistaður í fangaklefa þar til rennur af honum og hægt er að komast að því hver hann er og hverra manna hann sé.