Ætla að bjóða Grindvíkingum hollvinasamninga

Frá Grindavík.
Frá Grindavík. mbl.is/Árni Sæberg

Fasteignafélagið Þórkatla hyggst bjóða fyrrverandi eigendum húsnæðis í Grindavík upp á bæði leigusamninga og svokallaða hollvinasamninga, en forsenda þeirra er þó að öruggt sé talið að dvelja í Grindavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Þórkötlu en þar segir að hollvinasamningur muni byggja á samstarfi Þórkötlu við seljendur eignanna um umhirðu, minniháttar viðhald og almennt eftirlit með eignunum. Ákvörðun um framkvæmd þessara samninga verði tekin um leið og aðstæður leyfa.

Hafa gengið frá kaupum á 852 fasteignum

Í tilkynningunni segir enn fremur að Þórkatla hafi gengið frá kaupum á 852 fasteignum í Grindavík eða 93% þeirra sem sótt hafa um. Afhendingar hafa gengið vel og hefur félagið þegar tekið við um 650 eignum. Unnið er að lokauppgjöri við seljendur og frágangi afsala. Félaginu hafa alls borist 917 umsóknir, auk 18 umsókna frá búseturéttarhöfum.

Heildarfjárfesting félagsins til þessa er rúmir 65 milljarðar króna. Þar ef eru kaupsamnings- og afsalsgreiðslur tæpir 45 milljarðar króna og yfirtekin húsnæðislán rúmir 20 milljarðar króna.

„Það er ánægjulegt að okkur hefur nú þegar tekist að koma rúmlega 850 fjölskyldum í Grindavík til hjálpar í þessum erfiðu aðstæðum. Fram undan er vissulega ákveðin biðstaða en við vonum að náttúruöflin verði okkur að lokum hliðholl svo huga megi að framtíð og uppbyggingu Grindavíkur fljótlega aftur,“ er haft eftir Erni Viðari Skúlasyni, framkvæmdastjóra Þórkötlu, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka