Ætlar að stinga sem flesta af

Mæðgin Bjarni og Ásdís ætla að hlaupa saman 3 km …
Mæðgin Bjarni og Ásdís ætla að hlaupa saman 3 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Ljósmynd/Aðsend

Mæðginin Ásdís Björk Friðgeirsdóttir og Bjarni Steinn Pétursson ætla að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og hlaupa saman þrjá kílómetra.

Ásdís hleypur til styrktar Parkinsonsamtökunum, þar sem móðir hennar glímir við Parkinson, en Ásdís hefur sjálf átt í baráttu við krabbamein. Baráttu hennar er þó lokið og er hún nú að jafna sig eftir erfiða krabbameinsmeðferð. Bjarni hleypur hins vegar fyrir Ljósið, til heiðurs mömmu sinni, sem hefur fengið mikinn stuðning frá Ljósinu í sinni baráttu.

Bjarni, sem er tíu ára gamall, segir að hann hafi viljað leggja sitt af mörkum til að hjálpa Ljósinu.

„Ljósið er búið að hjálpa mér mikið og sérstaklega mömmu. Mig langaði að gera þetta, hjálpa þessu fyrirtæki,“ segir hann. Þrátt fyrir að hann hafi ekki æft sig sérstaklega fyrir hlaupið, er Bjarni í fótbolta og því vanur að hlaupa mikið. Hann vildi fá að hlaupa 10 km maraþonið, en því miður er hann of ungur.

Ætlarðu að stinga mömmu þína af?

„Já, ég ætla að reyna að vera á undan eins mörgum og ég get,“ segir hann hlæjandi.

Bjarni Steinn Pétursson.
Bjarni Steinn Pétursson. Ljósmynd/Aðsend

Andinn dásamlegur

Ásdís er á sama máli um mikilvægi Ljóssins: „Ljósið er náttúrulega bara dásamlegt, það hefur hjálpað mér á margan hátt. Ég nýtti mér rosalega mikið líkamsræktina hjá þeim og sjúkraþjálfaranna, svo nýtti ég mér öll námskeið sem voru í boði; mér fannst maturinn æðislegur, þannig ég borðaði eins oft og ég gat þarna,“ segir Ásdís.

„Mér finnst andinn svo dásamlegur og fólkið, bara að vera þarna hjálpaði manni,“ segir Ásdís.

Hvernig er að sjá Bjarna gera þetta fyrir þig?

„Það er yndislegt, hann stendur sig rosalega vel og er einlægur í þessu,“

Ásdís Björk Friðgeirsdóttir hress og kát.
Ásdís Björk Friðgeirsdóttir hress og kát. Ljósmynd/Aðsend

Taka einn dag í einu og anda 

Pabbi Bjarna tekur einnig þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og hleypur 10 km til styrktar Ljósinu, en fjölskyldan ætlar að bíða við endamarkið og fagna honum þegar hann kemur í mark.

Aðspurður segir Bjarni að skilaboðin hans til fólks í svipaðri stöðu séu einföld: „Áfram Ljósið“

Ásdís hvetur fjölskyldur í svipaðri stöðu til að nýta sér þjónustu Ljóssins.

„Taka einn dag í einu og anda niður í maga,“ segir hún og bætir við að Bjarni hafi í fyrstu verið smeykur við að fara í Ljósið, en eftir að hafa sótt námskeið fyrir börn var hann fljótur að byrja að líða vel þar.

Hægt er að heita á Bjarna hér. 

Hægt er að heita á Ásdísi hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert