„Ekkert grín að lenda í þessu fólki“

Pétur Jökull Jónasson er 45 ára gamall.
Pétur Jökull Jónasson er 45 ára gamall. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég hef ekki hugmynd um það,“ svaraði Pétur Jökull Jónasson spurður út í gám sem var fullur af kókaíni sem lagði af stað til Íslands frá Brasilíu í maí 2022, er Pétur var staddur í Brasilíu.

Pétur er ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með hlutdeild að stóra kókaínmálinu svokallaða.

Aðalmeðferð í málinu gegn Pétri hófst í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag með skýrslutöku yfir honum.

Saksóknari byrjaði á að spyrja hann út í ferðir hans árið 2022 en gámurinn með kókaíninu fór frá Brasilíu í maí og til Rotterdam í Hollandi. Þar lögðu yfirvöld hald á fíkniefnin og komu fyrir gerviefnum sem komu síðan til Íslands.

Kókaínið sem hollenska lögreglan gerði upptæk í timbursendingu - samtals …
Kókaínið sem hollenska lögreglan gerði upptæk í timbursendingu - samtals 99,25 kg. Ljósmynd/Hollenska lögreglan

Erfitt að fóta sig á Íslandi

Pétur sagðist hafa verið í Brasilíu, Hollandi, Spáni, Íslandi og Taílandi þetta árið. Hann dvaldi í Taílandi þar til hann kom til Íslands í febrúar á þessu ári og var handtekinn.

Spurður hvað hann var að gera í Brasilíu sagðist Pétur hafa verið að skemmta sér og langað að æfa brasilískt jiu jitsu. Sóttvarnareglur vegna heimsfaraldursins hafi hins vegar komið í veg fyrir æfingarnar. Pétur sagðist ekki hafa hitt neina Íslendinga á meðan hann var þar.

Saksóknari spurði Pétur hvort það hafi verið sérstök ástæða fyrir því að hann var á svona miklu flakki árið 2022. Hann sagðist hafa átt erfitt með að fóta sig heima á Íslandi. Hann var því að gera upp við sig hvort hann ætti að flytja til Spánar eða Brasilíu. Taíland varð hins vegar fyrir valinu.

Pétur sagðist ekki þekkja þrjá af fjórum mönnunum sem þegar hafa sakfelldir fyrir aðkomu að innflutningnum.

Það eru þeir Páll Jónsson, Daði Björnsson og Jóhannes Páll Durr. Pétur sagðist þó kannast við Birgi Halldórsson frá því þeir voru báðir að leigja á Hverfisgötu árið 2015.

Þeir munu allir bera vitni fyrir hádegi í dag.

Í bakrunni eru þrír af fjórum sakborningum í héraðsdómi í …
Í bakrunni eru þrír af fjórum sakborningum í héraðsdómi í byrjun síðasta árs. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sveddi tönn og Guðlaugur Agnar

Saksóknari greindi frá því að tveir aðrir menn hefðu verið til rannsóknar vegna málsins.

Það eru þeir Guðlaugur Agnar Guðmundsson, sem var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot og skipulagða brotastarfsemi vegna saltdreifaramálsins, og Sverrir Þór Gunnarsson eða Sveddi tönn, sem situr í fangelsi í Brasilíu fyrir stórfelld fíkniefnalagabrot á alþjóðavísu.

Pétur og Guðlaugur Ragnar voru báðir ákærðir fyrir innflutning fíkniefna árið 2010. Pétur var dæmdur en Guðlaugur sýknaður, en þeir sátu þó báðir inni á Litla Hrauni árið 2010, Guðlaugur fyrir peningaþvætti. Pétur sagði þá vera vini en þó ekki verið í miklum samskiptum. Hann sagði þá síðast hafa hist árið 2022.

Spurður út í tengsl við Sverri Þór sagðist Pétur þekkja hann frá því í gamla daga og sagðist hafa heyrt í honum síðast fyrir tæpu ári.

Harry, Trucker, Pablo Kartum

Pétur sagðist hafa notað Whatsapp og Signal í gegnum tíðina. Hann kannaðist ekki við notendanöfnin sem hinir fjórir sakborningarnir hafa minnst á og verið í samskiptum við á Signal.

Daði sagði áður að Pétur hafa verið að baki notendanöfnunum Harry, Trucker, Pablo Kartum.

Saksóknari bar undir Pétur alls konar staðhæfingar til þess að tengja hann við notendanöfnin. Pétur sagði að það liti út fyrir að um tilviljun væri að ræða og vildi ekki kannast við notendanöfnin. „Ekki hugmynd,“ sagði hann á einum tímapunkti.

Pétur Jökull ásamt lögmanni sínum.
Pétur Jökull ásamt lögmanni sínum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kennir krökkum tónlist í Taílandi

Pétur sagði að eftir að lýst var eftir honum á vefsíðu Interpol hafði hann haft samband við lögmann.

Hann gaf sig fram í Bangkok, höfuðborg Taílands, og losaði sig við öll raftæki áður í „paniki“. Hann sagðist hafa óttast að taílensk yfirvöld kæmust yfir raftækin: „Það er ekkert grín að lenda í þessu fólki,“ sagði hann.

Pétur sagðist hafa fengið sér nýjan síma og ekki fært nein gögn úr þeim gömlu.

Dómari spurði Pétur að lokum út í persónulega hagi hans. Pétur sagðist eiga eina uppkomna dóttur. Þá á hann kærustu í Taílandi. Hann var að þjálfa þar og kenna krökkum tónlist.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert