Ekki sá Pétur sem hann hitti

Daði Björnsson og Páll Jónsson voru báðir dæmdir í málinu …
Daði Björnsson og Páll Jónsson voru báðir dæmdir í málinu á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nei,“ svaraði Daði Björnsson ákveðið, spurður af saksóknara hvort hann þekkti manninn sem sat í dómssal í aðalmeðferð stóra kókaínmálsins, Pétur Jökul Jónasson.

Daði var dæmdur í fimm ára fangelsi í Landsrétti fyrir sína aðkomu að tilraun til að smygla tæplega 100 kg af kókaíni til landsins.

Hann var sá eini af fjórum, sem hafa verið dæmdir í málinu, sem voru í samskiptum við Pétur. Hvaða Pétur sagðist hann ekki vita.

Pétur Jökull í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.
Pétur Jökull í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óttast engan

Saksóknari spurði Daða hvort hann óttaðist einhvern í tengslum við málið og svaraði Daði þá einnig staðfastlega: „Nei.“

Dómari spurði Daða einnig hvort hann væri alveg viss um að Pétur Jökull hefði ekki verið maðurinn sem hann var í samskiptum og hitti vegna málsins.

„Alveg viss um það,“ svaraði Daði og sagði að hann vissi ekki hvaða Pétur hann hefði verið í samskiptum við.

Bar fyrir sig að hafa verið í neyslu

Í skýrslutökunni bar Daði fyrir sig að hafa verið í mikilli neyslu árið 2022 er innflutningurinn átti sér stað.

Spurður hvernig það kom til að hann kynntist þessum Pétri sagðist hann hafa fengið símtal og ákveðið að hitta hann. Daði sagðist ekki hafa hugmynd um hvernig Pétur vissi af honum.

Hann sagði að samskiptin við Pétur hefðu farið fram í eigin persónu og í gegnum samskiptaforritið Signal. Þá sagðist hann ekki muna hvort hann hefði hitt hann oftar en einu sinni.

Daði hafði lýst Pétri sem stórgerðum, þreknum og ljóshærðum manni sem var oft klæddur í  jakka með Stone Island-merki. Pétur Jökull viðurkenndi fyrir dómi að hafa átt slíkan jakka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert