Enn skelfur í Ljósufjallakerfinu

Litið til Ljósufjalla á Snæfellsnesi.
Litið til Ljósufjalla á Snæfellsnesi. mbl.is/Sigurður Bogi

Jarðskjálfti af stærðinni 2,6 varð í Ljósufjallakerfinu á áttunda tímanum í kvöld. Skjálftahrina hófst í kerfinu um helgina og mældist þá talsverður fjöldi skjálfta.

Upptök skjálftans eru rétt austur af Grjótárvatni og er hann sá stærsti sem mælst hefur í þessari hrinu. 

Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur benti á það í samtali við Morgunblaðið í dag að reytingur af skjálfum hefði verið í kerfinu síðustu tvö til þrjú árin. Skjálftavirknin sé eftirtektarverð og ástæða sé til að fylgjast með svæðinu. 

Kortið sýnir jarðskjálfta sem mælst hafa í Ljósufjallakerfinu á þessu …
Kortið sýnir jarðskjálfta sem mælst hafa í Ljósufjallakerfinu á þessu ári. Þeir eru alls 32 talsins og er skjálftinn í kvöld sá stærsti sem mælst hefur í kerfinu á þessu ári. Skjálftarnir mælast flestir í kringum Grjótárvatn. Austan við skjálftaþyrpinguna má sjá Langavatn. Ljósufjöll, sem kerfið dregur nafn sitt af er vestar á Snæfellsnesi. Kort/Veðurstofa Íslands

Skjálftahrina varð árið 2021

Morgunblaðið fjallaði um skjálfta í Ljósufjallakerfinu í október árið 2021 þegar fleiri en tuttugu skjálftar höfðu mælst á fjórum mánuðum. Voru skjálftarnir þá orðnir talsvert fleiri en mælst höfðu í að minnsta kosti tólf ár þar á undan. 

Eld­stöðva­kerfið sem um ræðir nefn­ist Ljósu­fjalla­kerfið. Norðvest­ur­endi kerf­is­ins er sunn­an við Stykk­is­hólm en Ljósu­fjöll draga nafn sitt af ljós­um súr­um berg­teg­und­um í fjöll­un­um. Miðja eld­stöðva­kerf­is­ins er tal­in vera í sjálf­um Ljósu­fjöll­um. Virknin nú er helst í kringum Grjótárvatn, en Ljósufjöll eru talsvert lengra í vestur. 

Ekki hefur gosið í kerfinu síðan á landnámsöld. Varð það snemma á land­náms­öld, þótt ekki hafi tek­ist að greina hvaða ár það varð. Að öll­um lík­ind­um var það í Rauðháls­um. Tek­ist hef­ur að skil­greina um 23 eld­gos á nú­tíma í sjálfu Ljósa­fjalla­kerf­inu.

Fjöll­in hlóðust upp með mik­illi og fjöl­breyti­legri eld­virkni allt frá seinni­hluta ís­ald­ar. Eld­virkni á sögu­leg­um tím­um hef­ur verið bund­in við svæðið aust­an Ljósu­fjalla, nán­ar til­tekið við Hít­ar­dal og Hnappa­dal.

Í Morgunblaðinu í dag leggur Páll áherslu á að eldstöðin í Ljósufjöllum teljist ekki hættuleg í samanburði við ýmsar aðrar. Öll þessi gos hafi verið lítil og flokkist ekki undir miklar hamfarir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert