„Það er ekkert sem bendir til annars,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, í samtali við blaðamann Morgunblaðsins, spurður hvort hægt sé að segja afdráttarlaust að ósk ferðamanna í Kerlingarfjöllum um aðstoð hafi verið falsboð.
Ráðist var í umfangsmikla leit á svæðinu eftir að neyðarlínunni barst beiðni um aðstoð að kvöldi 5. ágúst, sem talið var að væri frá ferðamönnum sem væru þar innlyksa í helli.
Leitin skilaði engu og daginn eftir kom í ljós að sterkar vísbendingar væru um að beiðnin hefði ekki komið frá einstaklingum í neyð, heldur að um falsboð væri að ræða. Leitinni var þá frestað.
Að leitinni kom fjöldi björgunarsveitarmanna, lögregluþjóna og fulltrúa Landhelgisgæslunnar, en í heildina tóku tæplega 200 manns þátt í henni.
Lögreglan á Suðurlandi tók ákvörðun á þriðjudaginn um að fresta leitinni. Þó svo að staðan núna sé kölluð „leitarpása“ segir Sveinn ekki gert ráð fyrir að leit hefjist á ný.
Þá bendi ekkert til þess að neyðarboðin hafi ekki verið falsboð. Engin tilkynning hefur borist um týndan einstakling.
Beiðnin um aðstoð barst neyðarlínunni á ensku. Að sögn Sveins útilokar lögreglan því ekki að falsboðin gætu hafa komið frá útlöndum.
Yfirlögregluþjóninn segir að það sé enn þá verið að vinna úr gögnum og að ekki sé mikið sem hægt sé að upplýsa um málið eins og er.
Lögreglan sé í samskiptum við netfyrirtæki og símafyrirtæki, og að þau séu að afla gagna bæði hérlendis og erlendis í tengslum við rannsóknina. Þörf sé á að fara í gegnum alls konar gögn og geti það reynst fremur flókið.
„Við erum enn þá að vinna úr þessum gögnum og elta þessar slóðir. Það tekur allt svolítinn tíma,“ segir Sveinn.