Gekk heila nótt í leit að skjóli

Horft yfir Súðavík með Snæfjallaströndina í baksýn. Mynd úr safni.
Horft yfir Súðavík með Snæfjallaströndina í baksýn. Mynd úr safni. mbl.is/Sigurður Bogi

Ingi Guðnason, frá Bæjum á Snæfjallaströnd, á kuldagallanum sem hann var með í skotti bíls síns mikið að þakka.

Á frídegi verslunarmanna lenti hann í sannkallaðri svaðilför þegar bíll hans festist og hann þurfti að ganga í miklu slagviðri í heila nótt til að komast í skjól og símasamband.

Ríkisútvarpið greindi fyrst frá málinu.

Ingi gerði sér ferð á æskuslóðirnar á Snæfjallaströnd um verslunarmannahelgina og lét leiðindaveður ekki stöðva sig.

Þurfti að vera fuglinn fljúgandi

Á mánudeginum tók hann rúnt inn í Nautahrepp og heimsótti þar nokkra bæi. Rétt fyrir miðnætti lagði hann svo af stað til baka að félagsheimilinu í Dalbæ þar sem hann gisti.

Sú heimferð átti eftir að verða örlagarík en mikið slagviðri var úti.

„Ég kem inn að Kvíslá og þegar ég fer yfir brúna sé ég að svona 200 metrum frá mér er flóð yfir veginn. Ég fór og rölti af stað og reyndi að rýna út í myrkrið til að kanna aðstæður. Það var gjörsamlega þannig að maður þurfti að vera fuglinn fljúgandi til að komast yfir. Svo ég labba að bílnum aftur en þegar ég kem að honum þá er hann sokkinn í rúmlega metra holu sem hafði myndast yfir veginn,“ lýsir Ingi en ekkert símasamband var á svæðinu.

Eins og Palli einn í heiminum

Hann áttaði sig fljótlega á því að hann hefði um ekkert annað að velja en að ganga að næsta bæ, um 20 kílómetra leið.

„Maður var bara eins og Palli einn í heiminum. Ég gat ekkert látið vita af mér eða neitt.“

Til að komast leiðar sinnar þurfti Ingi að vaða gegnum mikið kjarr og mýrlendi í grenjandi rigningu, roki og myrkri, en sem betur fer hafði hann verið með vetrarföt í bílnum.

„Það hefði alveg getað farið svo að ef ég hefði ekki verið með gallann og stígvélin þá væri ég ekkert að tala við þig núna,“ segir Ingi sem komst loks í skjól upp úr klukkan 6 að morgni.

Leiðrétting:

Upphaflega stóð að vestfirski miðillinn Bæjarins bestu hefði fyrst greint frá málinu en hið rétta er að RÚV greindi fyrst frá.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert