Ítrekað sinnuleysi barnamálaráðherra

Engin svör. Ráðherra hefur ítrekað hundsað erindi Persónuverndar og á …
Engin svör. Ráðherra hefur ítrekað hundsað erindi Persónuverndar og á sama tíma látið hjá líða að skila lögbundnum skýrslum til Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur látið hjá líða að skila skýrslu um framkvæmd skólastarfs í framhaldsskólum.

Slíkri skýrslu ber ráðherra að skila á þriggja ára fresti og hefði hann því lögum samkvæmt átt að leggja skýrsluna fyrir Alþingi á vorþingi 2023.

Síðasta skýrsla um málaflokkinn, sem lögð var fram á vorþingi árið 2020, tók til skólaáranna 2013/2014, 2014/1015 og 2015/2016. Síðan þá hafa umfangsmiklar breytingar átt sér stað innan framhaldsskólakerfisins.

Þar á meðal er stytting framhaldsnáms, með tilheyrandi breytingum á einingakerfi, sem ekki var komin til fullra framkvæmda á tímabilinu sem fjallað er um í síðustu skýrslu.

Trassað skýrsluskil um grunnskóla enn meira

Þá má ekki gleyma áhrifum umfangsmikilla samkomutakmarkana sem stjórnvöld skipuðu fyrir um vegna heimsfaraldurs covid-19. Settu þær mark sitt á starf framhaldsskóla landsins og félagslíf nemenda þeirra.

Kveðið er á um ofangreinda skyldu ráðherra í 56. grein laga um framhaldsskóla, frá árinu 2008, en ákvæðið á sér hliðstæðu í 4. grein laga um grunnskóla frá sama ári, þar sem einnig segir að ráðherra skuli skila skýrslu um skólastarfið á þriggja ára fresti.

Þeirri skyldu hefur ráðherra mætt af enn meira sinnuleysi, en umboðsmaður barna vakti á dögunum athygli á því að ráðherra hefði ekki skilað skýrslu um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum síðan á vorþingi 2019.

Tók sú skýrsla til áranna 2010-2016.

Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra kynnti í apríl nýja …
Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra kynnti í apríl nýja stofnun í stað Menntamálastofnunar, en sú nefnist Miðstöð menntunar og skólaþjónustu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brýnt að skila sem fyrst

Umboðsmaður barna minnti ráðherrann fyrst á skil skýrslu um grunnskólastarf með bréfi í apríl árið 2022.

Bendir hann á að sú skýrsla sem skilað var árið 2019 sé sú eina sem ráðuneytið hafi lagt fram á þeim 14 árum sem þá voru liðin frá gildistöku laganna, en nú eru árin orðin 16.

„Af framangreindu er ljóst að ráðuneytið hefur ekki sinnt þeirri lögbundnu skyldu sinni að leggja á þriggja ára fresti fram skýrslur um framkvæmd skólastarfs, til að gera löggjafarvaldinu kleift að sinna því hlutverki sínu, að veita framkvæmdarvaldinu aðhald og eftirlit,“ skrifar umboðsmaður í bréfinu.

Rifjar hann einnig upp að á liðnum árum hafi mikið verið rætt um starfsumhverfi grunnskóla, líðan nemenda og fyrirkomulag kennslu, sem kalli á frekari upplýsingagjöf ráðherra um stöðu grunnskóla og grunnskólanemenda í íslensku samfélagi.

„Þá er sérstaklega brýnt að fram komi sem fyrst skýrsla um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum á síðustu tveimur árum, þar sem sóttvarnaaðgerðir hafa haft víðtæk áhrif,“ skrifar umboðsmaður áfram í bréfinu, vel að merkja í apríl 2022.

„Með vísan til framangreinds, óskar umboðsmaður barna eftir upplýsingum um það, hvenær ráðuneytið hyggst leggja fram skýrslu til Alþingis um framkvæmd skólastarfs í grunnskólum landsins.“

Átta skólaár, engin skýrsla

Skemmst er frá því að segja að ráðherra svaraði bréfi umboðsmanns mánuði síðar og lofaði að skila skýrslu fyrir lok þess sama árs.

Nú, rúmum tveimur árum síðar, hefur ráðherra ekki enn lagt skýrsluna fyrir Alþingi.

Alls hafa því liðið átta skólaár án þess að ráðherra hafi gert Alþingi grein fyrir skólastarfi þeirra ára. Á sama tíma hefur frammistöðu íslenskra grunnskólabarna hrakað verulega í alþjóðlegum samanburði, svo mjög að tala má um hrun.

Í svari við fyrirspurn mbl.is fyrr í mánuðinum, þar sem skýringa var óskað á þessu, bar ráðherrann fyrir sig breyt­ingar inn­an Stjórn­ar­ráðsins og ráðuneyt­is­ins, sem og breyt­ingar á fram­kvæmd verk­efna vegna til­komu Miðstöðvar mennt­un­ar og skólaþjón­ustu, stofnunar sem tók við af Menntamálastofnun þegar hún var lögð niður 1. apríl á þessu ári.

Tók ráðherra þó fram að drög að skýrslunni lægju fyr­ir í ráðuneyt­inu og að hún væri á þing­mála­skrá til fyr­ir­lagn­ing­ar á haustþingi.

Bréf Persónuverndar hundsuð

Eins og mbl.is hefur vakið athygli á hafa ráðherra og Menntamálastofnun, nú Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, einnig ít­rekað hundsað er­indi Per­sónu­vernd­ar sem tengjast Innu, upplýsingakerfi framhaldsskóla.

Stofnunin óskaði fyrst eftir upplýsingum frá ráðherra í júní árið 2022. Rúm­um tveim­ur mánuðum síðar fór ráðherra fram á að frest­ur­inn til að svara yrði fram­lengd­ur, sem Persónuvernd varð við. Hafði ráðuneytið tíma til 8. september til að svara.

Ráðherra nýtti sér ekki svarfrestinn sem hann fór fram á.

Hefur Persónuvernd síðan þá ítrekað beiðni sína um upplýsingar alls fjórum sinnum, í júní 2023, nóvember 2023, desember 2023 og síðast í janúar 2024.

Svar frá ráðherra hefur þó aldrei fengist og hefur Persónuvernd nú gefist upp, eftir að hafa sagt svarleysið ámælisvert.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert