Landsbjörg og Landhelgisgæslan ræstu ásamt fleirum út viðbragðsaðila sína á áttunda tímanum í kvöld vegna báts sem hvolfdi í Hvalfirði. Einn var um borð í bátnum og var hann fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar á sjúkrahús til aðhlynningar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
„Þyrlusveit Landhelgisgæslunnar, lögregla, áhöfnin á sjómælingaskipinu Baldri og sjóbjörgunarsveitir á vegum Slysavarnafélagsins Landsbjargar voru kallaðar út á áttunda tímanum í kvöld í kjölfar þess að tilkynnt var um bát á hvolfi í Hvalfirði. Vegfarendur sögðu bátinn vera um 300 metra frá landi og sáu mann á kili bátsins.
Björgunarsveitir frá Akranesi, Kjalarnesi og Reykjavík héldu á staðinn og þyrlusveit Landhelgisgæslunnar var ræst út á mesta forgangi. Þegar þyrlusveit og björgunarsveitarfólk kom á vettvang hafði manninum tekist að komast að sjálfsdáðum í land. Viðbragðsaðilar hlúðu að manninum sem var bæði kaldur og blautur eftir óhappið. Hann var fluttur með þyrlu Landhelgisgæslunnar til frekari skoðunar á sjúkrahús í Reykjavík,“ segir í tilkynningunni.
Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við mbl.is að útkall vegna málsins hafi borist um klukkan 19.40 en óhappið hafi gerst í innanverðum Hvalfirði nærri Hvammsvík. Þá segir hann að um seglbát hafi verið að ræða.