Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur, segir það geta verið ófaglegt að gera samanburð á milli grunnskóla. Þörf sé þó á samræmdum mælingum og finnst honum miður að vinna við þær sé ekki komin lengra á veg.
Niðurstöður úr samræmdum mælingum séu mikilvægar en aðeins fyrir skólayfirvöld til að taka mið af.
„Það skiptir gríðarlega miklu máli að kennarar fái svona gögn í hendurnar til að meta eigin störf og skólarnir – til þess að geta borið sig saman við meðaltöl og þróun skólans milli ára,“ segir Helgi í ítarlegu viðtali við Morgunblaðið í dag.
Hann segir skólayfirvöld þó geta sætt sig við að samræmd könnunarpróf verði aflögð, eins og ráðherra vill að gert verði, þar sem prófin nái aðeins að mæla ákveðna færni nemenda og nýtt námsmat, matsferill, sé í þróun.
Eins og mbl.is og Morgunblaðið hafa greint frá verður matsferillinn innleiddur í áföngum á næstu árum. Vinna við nýja námsmatið hófst árið 2020. Á þarnæsta skólaári, eða 2025-2026, á fyrsti hluti þess, svokallaður lesferill, að vera tilbúinn til innleiðingar.
Ári síðar hyggjast skólayfirvöld svo innleiða svokallaðan stærðfræðiferil. Vinna við námsmatstæki sem mæla færni í náttúruvísindum og öðrum tungumálum en íslensku er ekki hafin.
Helgi segir að hraða þurfi vinnu við matsferilinn eins og kostur er.
„Að birta niðurstöður allra skóla í Reykjavík út frá samræmdum prófum og draga ályktun af því að besti skólinn sé sá skóli sem sé með hæstu einkunn – það er bara kolröng niðurstaða, kolröng ályktun,“ segir Helgi um kröfu þess efnis sem fram hefur komið í umræðunni.
En það hlýtur að gefa einhverja vísbendingu um hverjir séu að standa sig vel?
„Nei, það gæti jafnvel ekki gefið neina vísbendingu ef þú tekur ekki tillit til menntunarstigs foreldra og hvaðan tekjurnar koma.“
En eru það ekki langflestir sem gera sér grein fyrir því að breyturnar sem þú nefnir hafi áhrif?
„Ekki Viðskiptaráð,“ segir Helgi. „Þeir virðast ekki átta sig á því að einkunn sé bara það sem skólinn gerir en líti algjörlega fram hjá áhrifum foreldra.“
En þið getið ekki nýtt ykkur samræmt námsmat núna því það eru engin samræmd könnunarpróf.
„Ég er sammála. Og mér þykir miður að við séum ekki komin lengra, að við höfum ekki þessi gögn frá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og þessi próf sem við myndum vilja hafa. Það er alveg skýrt og þetta er eitthvað sem við verðum að hafa sem menntasamfélag.“
Hvað þætti þér ásættanlegt að bíða lengi eftir að matsferillinn yrði tilbúinn?
„Ég veit ekki nákvæmlega hvar vinnan er stödd. Ég veit ekki hverjir möguleikarnir eru á að hraða vinnunni. Ég held að við séum of langt á eftir og matsferill þyrfti að koma sem fyrst.“
Mun ítarlegar er rætt við Helga í Morgunblaðinu í dag.