Flutningabíll sem kviknaði í fyrr í kvöld undir Hafnarfjalli er ónýtur. Þetta má sjá á myndbandi af bílnum eftir að slökkviliði hafði tekist að vinna bug á eldinum.
Útkall vegna brunans barst til slökkviliðs Borgarbyggðar um klukkan 18.30 og búið var að slökkva eldinn um 45 mínútum síðar. Dælubílar frá Akranesi og Borgarnesi fóru á vettvang.
Tveir menn voru í bílnum en tókst þeim að koma sér út áður en bíllinn varð alelda og sluppu þeir áverkalausir.
Veginum undir Hafnarfjalli var lokað um stund en búið er að opna hann á ný.