Drukkinn Íslendingur hlaut áverka í slagsmálum við leigubílstjóra sinn í Norður-Pattaya á Taílandi á laugardagskvöld. Frá þessu greinir taílenska dagblaðið Bangkok Post.
Lögregla og sjúkralið voru kölluð að Soi Chalermphrakiat 19 í Bang Lamung-héraði þar sem þau komu að manninum blóðugum í framan og með höfuðsár.
Maðurinn gaf einungis upp nafnið Paul, en lögregla telur hann vera á sextugs- eða sjötugsaldri.
Á vettvangi voru einnig sjálfboðaliði taílensku lögreglunnar og 44 ára leigubílstjóri frá Bolt.
Bílstjórinn sagði lögreglu að hann hefði sótt Paul og taílenska konu í Soi Bua Khao og skutlað þeim að Soi Chalermphrakiat 19.
Þá hafi komið í ljós að maðurinn hafði skrifað inn vitlaust heimilisfang þegar hann pantaði farið. Hann hafi ætlað sér að fara til Soi Khao Noi.
Bílstjórinn útskýrði þá mistökin fyrir Paul og ók honum og taílensku konunni í áttina til Soi Khao Noi.
Bílstjórinn sagði að Paul hefði verið mjög ölvaður og hefði truflað sig við aksturinn. Hann hefði gengið svo langt að slá bílstjórann í höfuðið, en þá hefði hann stöðvað bifreiðina og sagt farþegunum að fara úr bílnum.
Þau hafi gert það og Paul skellt hurðinni á eftir sér og haldið áfram að hrópa að bílstjóranum. Paul hafi gripið í hálsmálið á bílstjóranum, slegið hann í hálsinn og rifið af honum gullkeðju.
Bílstjórinn hafi þá misst stjórn á skapi sínu og kýlt Paul í andlitið. Í kjölfarið hafi þeir slegist.
Lögreglusjálfboðaliðinn hafi þá stigið inn í til þess að stöðva slagsmálin, en Paul hafi kýlt sjálfboðaliðann þannig að hann missti meðvitund.
Uppfært klukkan 12.40:
Taílenska fjölmiðla greinir á um hvort að maðurinn, sem kallaður er Paul, sé Íslendingur eða Íri.
The Pattaya News segist hafa fengið það staðfest að maðurinn sé frá Írlandi.