Segir viðbrögðin sorgleg en fyrirsjáanleg

Bergþór Ólason segir Ásmund Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, ekki …
Bergþór Ólason segir Ásmund Einar Daðason, barna- og menntamálaráðherra, ekki hafa átt góðar vikur að undanförnu. Samsett mynd

Menntamálaráðherra, hin nýstofnaða Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og helstu formlegu talsmenn kennara og skólastjórnenda hafa ekki átt góðar vikur undanfarið.

Þetta segir Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, sem ritar pistil í Morgunblaðið í dag um menntamálin í kjölfar ítarlegrar umfjöllunar blaðsins og mbl.is.

„Umræða um stöðu mála í grunnskólum landsins er þannig vaxin að enginn ætti að unna sér hvíldar fyrr en til betri vegar horfir,“ skrifar Bergþór og bendir á að segja megi að þrennt hafi dregið þessa mikilvægu umræðu um menntamál upp á yfirborðið.

Nefnir hann þar fyrst viðtal við Jón Pétur Zimsen, aðstoðarskólastjóra Réttarholtsskóla í Dagmálum 3. júlí, en hann sagði íslenskt samfélag standa frammi fyrir hamförum þegar kemur að menntun barna.

Umsögn Viðskiptaráðs og skýrsla um drengi

Þá tiltekur hann umsögn Viðskiptaráðs um áform menntamálaráðherra um breytingu á lögum um námsmat, en umsögninni voru gerð greinargóð skil á mbl.is.

Loks nefnir hann skýrslu Tryggva Hjaltasonar um stöðu drengja í menntakerfinu, sem kynnt var í júní.

Þar kom meðal annars fram að annar hver drengur á Íslandi getur ekki lesið sér til gagns að lokinni tíu ára grunnskólagöngu.

Þriðji hver dreng­ur nær ekki grunn­hæfni í stærðfræðilæsi eða læsi á nátt­úru­vís­indi og dreng­ir í skóla­kerf­inu eru í tals­vert verri stöðu en dreng­ir í ná­granna­lönd­um okk­ar.

Á Íslandi eru minnst­ar lík­ur á að dreng­ir ljúki fram­halds­námi og brot­fall drengja úr fram­halds­skóla er mest hér­lend­is miðað við önn­ur Vest­ur­lönd.

Ekkert heildstætt samræmt mat hefur verið gert á hæfni grunnskólabarna …
Ekkert heildstætt samræmt mat hefur verið gert á hæfni grunnskólabarna frá því skólayfirvöld gáfust upp á samræmdu könnunarprófunum. mbl.is/Hari

Hjörðin mætti og hrakyrtist

„Viðbrögðin voru að mörgu leyti jafn sorgleg og þau voru fyrirsjáanleg. Sérstaklega gagnvart umsögn Viðskiptaráðs og skýrslu Tryggva Hjaltasonar. Í báðum tilfellum mætti hjörðin og hrakyrtist út í að þarna væru aðilar að tjá sig sem væru ekki sérfræðingar í málaflokknum og því lítið mark á þeim takandi,“ skrifar Bergþór.

„Hjörðin lagði sennilega ekki í að gagnrýna orð Jóns Péturs Zimsen, enda þar á ferðinni maður með yfirburðaþekkingu á málaflokknum. En stefið var slegið: það skulu ekki aðrir en sérfræðingar tjá sig um menntun barna og unglinga.“

Heggur nærri að stundi vörusvik

Hann heldur áfram:

„En hvernig hefur sérfræðingunum gengið? Að því er virðist álíka vel undanfarið og þeim sem sáu um burðarþolið í Brákarborg! Munurinn er sá að Brákarborg var rýmd. Börnin send annað og hafin leit að rót vandans og vonandi útfærslu nothæfrar lausnar í framhaldinu.

Grunnskólabörnin, sem geta ekki lesið sér til gagns og hafa þekkingu sem er undir því sem við ætlumst til í öðrum matshlutum PISA-úttektarinnar, hafa hins vegar fengið afhent stutta stráið frá stjórnvöldum og þeim sveitarfélögum sem heggur nærri að stundi vörusvik á köflum, enda greiða foreldrar barna sama útsvar hvar sem börn þeirra sækja grunnskóla.“

„Umræða um stöðu mála í grunnskólum landsins er þannig vaxin …
„Umræða um stöðu mála í grunnskólum landsins er þannig vaxin að enginn ætti að unna sér hvíldar fyrr en til betri vegar horfir,“ segir þingmaðurinn. mbl.is/Árni Sæberg

Börnin eigi betra skilið

Þingmaðurinn spyr hvort ekki gæti orðið til gagns að birta niðurstöður PISA-kannana, þó ekki væri til annars en að veita foreldrum verkfæri til að meta þá þjónustu sem þeir borgi fyrir með útsvari sínu.

„Veita börnunum tækifæri til þess að njóta betri menntunar þegar réttir hvatar hafa verið innleiddir gagnvart þeim sem skólunum stýra?“ spyr hann.

„Ef eitthvað er raunverulega viðkvæmt hvað birtingu varðar, nú þá finna menn leið til að takast á við þau tilteknu atriði en loka ekki á alla birtingu upplýsinga eins og nú er gert.

Einhendum okkur nú í að nálgast menntun barnanna okkar út frá hagsmunum þeirra sjálfra, en ekki kerfisins, þannig að þau hafi til að bera hæfni að afloknu grunnskólanámi sem gerir þeim kleift að vera virkir þegnar í samfélaginu. Þau eiga það skilið frá okkur sem eldri erum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka