Segist ekki hafa kynnt Daða fyrir neinum Pétri

Pétur Jökull Jónasson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun.
Pétur Jökull Jónasson í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Vinur Daða Björnssonar, sem kannast við Pétur Jökul Jónasson, neitaði fyrir dómi í dag að hafa kynnt mennina. Daði hefur þegar hlotið dóm í stóra kókaínmálinu og er Pétur ákærður fyrir aðild að málinu.

Auk Daða, báru Páll Jónsson, Birgir Halldórsson og Jóhannes Páll Durr vitni fyrir dómi í dag en þeir hafa verið dæmdir í fimm til níu ára fangelsi í Landsrétti fyrir að hafa reynt að smygla tæplega 100 kílóum af kókaíni til landsins frá Brasilíu.

Lítið kom út úr vitnaleiðslunum yfir fjórmenningunum í dag að öðru leyti en að mennirnir sögðust annað hvort ekki þekkja Pétur eða hann ekki tengjast málinu.

Daði sagðist hafa verið í samskiptum við Pétur, ekki Pétur Jökul þó.

Spurður hvernig það kom til að hann kynntist þessum Pétri sagðist Daði hafa fengið símtal og ákveðið að hitta hann. Daði sagðist ekki hafa hugmynd um hvernig Pétur vissi af honum.

Daði Björnsson er hér til hægri.
Daði Björnsson er hér til hægri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Voru allir í Vesturbænum

Vitnið sem kom síðastur fyrir dómi í dag sagðist hafa þekkt Pétur Jökul úr KR frá því í gamla daga og að hann og Daði hefðu verið góðir vinir frá því í grunnskóla.

Daði hafði sagt í skýrslutöku lögreglu að vitnið hefði kynnt þá Pétur. „Það stemmir ekki,“ sagði vitnið og sagðist ekki hafa kynnt Daða fyrir neinum öðrum Pétri.

Vitnið sagði þó að mögulega hefðu þeir þrír hist í KR í gamla daga, en Pétur er úr Vesturbænum. Engin tengsl hefðu þó myndast.

Þá sagði hann að Daði hefði aldrei rætt neinn Pétur við hann.

Aðalmeðferð málsins heldur áfram á morgun þar sem lögreglumenn munu meðal annars bera vitni. Aðalmeðferð lýkur síðan á miðvikudag með málflutningi sækjanda og verjanda. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert