Starfsmönnum álversins í Straumsvík er gert að fara á ýmis námskeið af hálfu ISAL, Rio Tinto á Íslandi, og þar á meðal í hinseginfræðslu. Starfsmenn fá greitt fyrir að mæta á námskeiðin.
Í svari ISAL við fyrirspurn mbl.is kemur fram að fræðsla starfsfólks sé einn af lykilþáttum í rekstri ISAL og að fræðslan snerti alla þætti starfseminnar. Er henni ætlað að bæta hæfni, öryggi og líðan starfsfólks.
„Mannréttindi, jafnrétti og sálfélagsleg líðan hefur á seinni árum fengið aukið vægi í fræðslu á vegum fyrirtækisins,“ segir í svari fyrirtækisins.
Bjarni Már Gylfason, leiðtogi samfélagsmála og samskipta hjá ISAL, staðfestir við mbl.is að mæting sé ekki valfrjáls. Starfsmenn sem þurfa að mæta á námskeið utan vinnutíma fá greitt fyrir það.
„Almennt eru námskeið haldin á dagvinnutíma en þar sem stór hluti starfsfólks vinnur á vöktum geta ekki öll komið á vinnutíma,“ segir í svari fyrirtækisins.
Á síðasta ári voru fræðslustundir starfsmanna 9.145 sem jafngildir því að hver starfsmaður ISAL hafi að meðaltali varið 25 klukkustundum í þjálfun og fræðslu, að er kemur fram í svarinu.
„Fræðsla, endurmenntun og reglubundin þjálfun er hluti af daglegu starfi okkar. Menntun og fræðsla starfsfólks er í gangi allt árið og hefur mikil og jákvæð áhrif á árangur fyrirtækisins.“
Í svarinu koma einnig fram dæmi um námskeið sem verða í haust:
„Auk þess geta verið margvísleg sérhæfð námskeið á einstaka fagsviðum sem starfsfólk okkar þarf að sækja,“ segir í svarinu.